Ísland þyrfti að vinna sinn riðil í Þjóðadeildinni í fótbolta til að keppnin gagnaðist liðinu við að komast í umspil um sæti á HM í Katar 2022.
Fyrst var leikið í Þjóðadeildinni haustið 2018 og réði lokastaðan þar því hvaða lið leika í umspilinu um sæti á EM. Þannig komst Ísland í EM-umspilið vegna stöðu sinnar í A-deild Þjóðadeildarinnar, þrátt fyrir að lenda þar í neðsta sæti og tapa öllum leikjum sínum, gegn Sviss og Belgíu. Önnur lið í A-deildinni komust nefnilega á EM í gegnum hina hefðbundnu undankeppni EM.
Það er því stöðu Íslands í Þjóðadeildinni að þakka að Ísland mætir Rúmeníu í EM-umspili 8. október.
Vægi Þjóðadeildarinnar er hins vegar mun minna nú, þegar kemur að því að ná HM-sæti, og í þetta sinn má segja að það komi Íslandi illa að vera í efstu deild með bestu þjóðum Evrópu.
Betra að vinna riðil í D-deild en að lenda í 2. sæti í A-deild
Á næsta ári fer fram undankeppni HM. Leikið verður í 10 riðlum og komast sigurvegararnir beint á HM. Liðin í 2. sæti fara í 12 liða umspil um þrjú laus sæti.
Til að fylla í umspilið komast tvö lið úr Þjóðadeildinni þangað. UEFA hefur hins vegar ákveðið að það verði þau tvö lið sem unnu sinn riðil í Þjóðadeildinni, náðu bestum árangri þar en komust ekki á HM eða í umspilið með árangri sínum í undankeppninni á næsta ári. Þetta kemur fram í svari UEFA við fyrirspurn Vísis.

Ef sigurvegarar riðlanna í A-deild komast á HM eða í umspil í gegnum undankeppnina, verður því horft til sigurvegara riðlanna í B-deild, svo þeirra sem vinna í C-deild og loks sigurvegara í D-deild ef til þess kemur.
Þannig gætu Færeyjar mögulega komist í HM-umspilið með því að vinna sinn riðil í D-deild, frekar en Ísland jafnvel þó að liðið næði 2. sæti í sínum riðli í A-deild.
Leiðin á HM í Katar
- Þrettán lið frá Evrópu komast á HM í Katar 2022.
- Leikið verður í tíu riðlum í undankeppni HM á næsta ári. Sigurvegarar riðlanna komast beint á HM.
- Liðin tíu sem lenda í 2. sæti fara í tólf liða HM-umspil. Þangað fara líka tvö lið sem unnu sinn riðil í Þjóðadeildinni. Í umspilinu verður leikið í þremur fjögurra liða hópum (undanúrslit og úrslitaleikur) um síðustu þrjú sætin á HM.
Ísland þyrfti því að vinna sinn riðil, sem í eru England, Belgía og Danmörk, til að Þjóðadeildin skilaði liðinu í HM-umspil. Leiðin á HM felst því mun frekar í góðum árangri í undankeppninni á næsta ári.
Fyrsti leikur Íslands í keppninni er gegn Englandi á Laugardalsvelli á laugardag og liðið sækir svo Belgíu heim á þriðjudag. Í október leikur liðið á heimavelli við Danmörku og Belgíu, og loks á útivelli gegn Danmörku og Englandi í nóvember þegar riðlakeppni Þjóðadeildarinnar lýkur.