Vegna kórónufaraldursins þá fengu fótboltamenn í stærstu liðum Evrópu nær ekkert sumarfrí. Þá var Eric Dier, leikmaður Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, hluti af leikmannahóp Englands sem mætti Íslandi og Danmörku í Þjóðadeildinni.
Dier hefur nú gagnrýnt það mikla leikjaálag sem sett er á stærstu lið ensku úrvalsdeildarinnar – og þar af leiðandi leikmenn þeirra – í upphafi móts. Hann segir að forráðamenn úrvalsdeildarinnar séu ekki með hagsmuni leikmanna að leiðarljósi.
Dier er sem stendur með Tottenham í Búlgaríu þar sem liðið mætir Lokomotiv Plovdiv í undankeppni Evrópudeildarinnar. Liðið gæti spilað alla þriðjudaga og fimmtudaga næstu þrjár vikurnar fari það svo að það fari áfram í Evrópudeildinni sem og enska deildarbikarnum.
„Ef þú horfir á leikjaniðuröðunina þá er ljóst að velferð leikmanna er ekki höfð að leiðarljósi,“ sagði Dier en Tottenham á fjóra leiki á næstu átta dögum.
Spurs face the possibility of nine matches in 21 days and Eric Dier says he is concerned about the danger to player welfare.
— BBC Sport (@BBCSport) September 16, 2020
Full story: https://t.co/Xe3P33mr9N pic.twitter.com/3KDlwJSaQn
Þá hjálpar það ekki að leikmannahópur liðsins er þunnskipaður og José Mourinho – þjálfari liðsins – er ekki mikið fyrir að breyta liði sínu milli leikja. Dier er reyndar ekki á sama máli en hann telur að liðið hafi „frábæra breidd og mikil gæði“ í leikmannahópi sínum.
Alls gæti Tottenham spilað níu leiki frá 13. september til 3. október. Það telur Dier fásinnu.
„Þetta er almenn skynsemi ef þú hugsar út í það. Það er eins og þeim sé alveg sama um leikmennina,“ segir hann að lokum.