Fjöldi Íslendinga lék í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Alfons og félagar hans í Bodø/Glimt eru nær óstöðvandi á meðan Íslendingalið Álasund er svo gott sem fallið.
Alfons Sampsted var á sínum stað í hægri bakverði toppliðs Bodø/Glimtt sem lagði Sandefjord 2-1 í dag. Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord en var tekinn af velli fyrir Emil Pálsson á 59. mínútu leiksins.
Bodø/Glimt er sem fyrr á toppi deildarinnar og titillinn svo gott sem kominn í höfn. Liðið er með 19 stiga forystu á Molde sem situr í 2. sæti deildarinnar. Sandegjord er með 23 stig í 12. sæti.
Íslendingalið Álasunds tapaði 2-1 fyrir Kristiansund á heimavelli í dag. Davíð Kristján Ómarsson var í vinstri bakverði heimamanna á meðan Daníel Leó Grétarsson sat allan tímann á varamannabekk liðsins.
Álasund situr sem fastast á botni deildarinnar með aðeins sjö stig eftir 20 leiki.
Íslendingaslag Viking FK og Strømsgodset lauk með 2-2 jafntefli. Axel Óskar Andrésson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Viking og þá var Ari Leifsson í miðverðinum hjá gestunum. Valdimar Þór Ingimundarson sat hins vegar allan tímann á varamannabekk Strømsgodset.
Viking er með 29 stig í 7. sæti á meðan Stromsgodset er með 23 stig í 11. sæti.
Þá unnu lærisveinar Jóhannes Þórs Harðarsonar í Start frábæran 5-1 sigur á Haugasund í dag. Guðmundur Andri Tryggvason var ekki í leikmannahópi Start. Liðið er í 14. sæti með 18 stig.