Fótbolti

Danir að­eins tapað tveimur leikjum á tæpum fjórum árum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Simon Kjær, fyrirliði danska liðsins, var á sínum stað gegn Króatíu á HM og verður það eflaust enn í kvöld.
Simon Kjær, fyrirliði danska liðsins, var á sínum stað gegn Króatíu á HM og verður það eflaust enn í kvöld. Andrew Surma/Getty Images

Ísland og Danmörk mætast á Laugardalsvelli í kvöld í Þjóðadeildinni. Bæði lið eru án sigurs en Ísland tapaði naumlega gegn Englandi í síðasta mánuði áður en liðið steinlá í Belgíu. Danmörk tapaði einnig gegn Belgíu en gerði jafntefi við England.

Tapið gegn Belgum er eina tap danska liðsins síðan liðið féll úr leik á HM í Rússlandi fyrir tveimur árum. Þá tapaði liðið reyndar í vítaspyrnukeppni gegn Króatíu. Það þarf hins vegar að fara aftur til 10. nóvember 2016 – er Danmörk tapaði 0-1 á heimavelli gegn Svartfjallalandi – til að finna leik sem tapaðist í venjulegum leiktíma.

Það má því sannarlega segja að Danir séu á góðu skriði og má svo sannarlega reikna með því að liðið mæti tilbúið í leik kvöldsins. Kasper Hjulmand, þjálfari liðsins, lagði allavega mikla áherslu á það í viðtali við Vísi fyrir leik að hans menn væru svo sannarlega klárir í bátana. Kasper Schmeichel og Pierre-Emile Højbjerg, leikmenn liðsins, tóku í sama streng.

Frá því að Danir duttu út gegn Króötum á HM léku þeir alls 13 leiki þangað til þeir töpuðu fyrir Belgum. Sjö af þeim lauk reyndar með jafntefli. Þeir gerðu sér þó lítið fyrir og lögðu Sviss á heimavelli í undankeppni Evrópumótsins. Eftir tapið gegn Belgíu gerðu Danir markalaust jafntefli við Englendinga og á miðvikudaginn var unnu þeir sannfærandi 4-0 sigur á Færeyingum.

Það má því búast við hörkuleik á Laugardalsvelli í kvöld og nær öruggt er að Danir stilli upp sínu sterkasta byrjunarliði. 

Kasper Schmeichel [Leicester City] verður í markinu, fyrirliðinn Simon Kjær [AC Milan] í miðri vörninni ásamt Andreas Christensen [Chelsea]. Þá verða þeir Thomas Delaney [Borussia Dortmund], Højbjerg [Tottenham Hotspur] og Christian Eriksen [Inter Milan] að öllum líkindum þrír á miðjunni. Frammi má svo eflaust finna Kasper Dolberg [Nice] eða Andreas Cornelius [Parma, á láni frá Atalanta].

Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 18.45 í kvöld í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Upphitun hefst 17.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×