Fótbolti

Høj­bjerg er spenntur fyrir tíunda leiknum á rétt rúmum mánuði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það hefur gengið ágætlega í síðustu tveimur leikjum Pierre-Emile Højbjerg. 6-1 sigur á Man Utd á Old Trafford og svo 4-0 sigur gegn Færeyjum á miðvikudaginn var.
Það hefur gengið ágætlega í síðustu tveimur leikjum Pierre-Emile Højbjerg. 6-1 sigur á Man Utd á Old Trafford og svo 4-0 sigur gegn Færeyjum á miðvikudaginn var. Alex Livesey/Getty Images

Pierre-Emile Højbjerg gekk í raðir Tottenham Hotspur í sumar eftir að hafa leikið með Southampton í ensku úrvalsdeildinni frá árinu 2016. Hann býst við erfiðum leik gegn Íslandi í kvöld. Hann segir ekkert mál að finna hvatningu fyrir jafn spennandi og erfiðan leik og hann reiknar með í kvöld.

„Ég býst við mjög góðu liði sem er fullt sjálfstrausts eftir að hafa unnið mikilvægan sigur á dögunum. Ég býst við liði sem er líkamlega sterkt þar sem leikmenn þekkja hvorn annan og hlutverk sín mjög eftir að hafa spilað lengi saman,“ sagði miðjumaðurinn öflugi við Vísi fyrir leik kvöldsins.

„Þeir hafa náð í mjög góð úrslit undanfarin ár svo ég reikna með mjög sterku liði,“ bætti hinn 25 ára gamli  Højbjerg við.

Højbjerg var spurður hvort það væri nokkuð erfitt að gíra sig upp í leik sem þennan. Síðustu leiktíð lauk ekki fyrr en nú í sumar og ekki var sumarfríið langt. Síðan 5. september hefur hann spilað níu leiki, tvo með Danmörku og sjö með Tottenham.

„Alls ekki. Ég hlakka mjög til leiksins gegn Íslandi í kvöld. Ísland er með mjög gott lið eins og við vitum. Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir bæði lið svo það er alls ekkert vandamál að gíra sig upp í leik sem þennan.“

„Ekki bara leikmennina heldur allt landið þar sem það á liðið ef svo má að orði komast. Ég held að allir vilji sýna sinn stuðning og við myndum vilja sýna hversu mikils við virðum stuðningsfólk okkar. Ég held að allir knattspyrnumenn myndu vilja spila fyrir troðfullum leikvangi en það er ekki hægt í núverandi ástandi. Það mikilvægasta er að allir séu heilsuhraustir, fari eftir fyrirmælum stjórnvalda og að við komum út úr þessu á eins góðan hátt og hægt er,“ sagði Højbjerg aðspurður hvaða áhrif það hefði á leikmenn að það væru engir áhorfendur.

Að lokum var hann spurður við hverju mætti búast frá danska liðinu í kvöld. 

„Liði sem er vel undirbúið, tilbúið í leikinn og vonandi tilbúið að berjast við íslenska liðið frá fyrstu mínútu og sækja þrjú stig.“

Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 18.45 í kvöld í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Upphitun hefst 17.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×