Lífið

Stjarna úr Two and a Half Men er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Conchata Ferrell varð 77 ára.
Conchata Ferrell varð 77 ára. AP

Bandaríska leikkonan Conchata Ferrell, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í þáttunum Two and a Half Men, er látin, 77 ára að aldri.

Ferrell lék í þáttunum á móti Charlie Sheen, en hún fór með hlutverk Bertu, húshjálpar persónu Sheen, í öllum tólf þáttaröðum þáttanna sem framleiddir voru á árunum 2003 til 2015.

Bandarískir fjölmiðlar segja Ferrell hafa andast í faðmi fjölskyldu sinnar á sjúkrahúsi í Kaliforníu eftir að hafa glímt við veikindi síðustu mánuði sem rakin voru til bólgu í nýrum. Hún hafði að undanförnu verið í öndunarvél.

„Ósvikinn vinur, átakanlegur og sársaukafullur missir,“ segir Sheen um fréttirnar af andláti Ferrell á Twitter.

Two and a Half Men gengið - leikararnir Jon Cryer, Angus T. Jones, Charlie Sheen og Conchata Ferrell.AP

Leiklistarferill Ferrell var langur en hennar verður þó líklega helst minnst fyrir hlutverkið í þáttunum Two and a Half Men sem fjölluðu um hinn óforbetranlega kvennabósa Charlie Parker og samband hans við bróður sinn og frænda eftir að þeir síðarnefndu flytja inn í glæsivillu Parker í Kaliforníu.

Áður en Ferrell tók að sér hlutverk Bertu hafði Ferrell meðal annars farið með hlutverk í stórmyndunum Edward Scissorhands, The Mask og Erin Brockovich.

Ferrell lætur eftir sig eiginmann og eina dóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×