Skoðun

Steypa um stjórnarskrá

Einar Steingrímsson skrifar

Vilji kjósenda hefur verið skýr í 10-15 ár: Yfirgnæfandi meirihluti er sammála helstu breytingum sem frumvarp Stjórnlagaráðs felur í sér. Og yfirgnæfandi meirihluti telur mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá.

Gegn þessu er teflt furðurökum: „Það er hættulegt að gera hraðar breytingar.“ En umræðan hefur staðið í tíu ár, með aðkomu gríðarlegs fjölda lærðra og leikra, og kröfurnar um helstu breytingar eru áratugagamlar.

„Það eru stórir gallar á frumvarpinu, t.d. X, Y og Z.“ En þau sem þetta segja búa ekki yfir stórasannleik, bara eigin skoðunum. Það verður aldrei alger sátt um stjórnarskrá, en það er stórkostlegur meirihluti fyrir helstu breytingunum.

„Þetta er ekki lengur gamla stjórnarskráin frá Danakóngi; það hafa verið gerðar miklar breytingar.“ Það eru reyndar ýkjur, en málið er þær breytingar sem ekki hafa verið gerðar, þrátt fyrir vilja stöðugs yfirgnæfandi meirihluta kjósenda.

„Það er ólöglegt að breyta stjórnarskránni nema með samþykki tveggja þinga.“ Já, en af því þjóðin á að vera stjórnarskrárgjafinn, hvorki kóngur né þing, hvað þá eigendur stjórnarflokkanna, þá ætti þingið að sjá sóma sinn í að láta vilja kjósenda ráða.

„Frumvarpið veitir forsætisráðherra alræðisvald yfir öðrum ráðherrum.“ En þingið getur sett ráðherra af á einum degi. Hins vegar tekur það marga mánuði að losna við forseta sem samkvæmt núgildandi stjórnarskrá getur skipað og rekið forsætisráðherra eftir geðþótta.

Stjórnarskrá verður aldrei fullkomin í augum einstakra borgara. En vilji meirihlutans hlýtur að ráða; þjóðin á að setja stjórnarskrá, ekki þingið eða lítil klíka valdafólks. Þess vegna á þingið að samþykkja það sem meirihluti kjósenda vill, og hætta að hunsa það sem kom fram með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir átta árum.

Á mánudag er síðasti séns að skrifa undir kröfuna um nýja stjórnarskrá: listar.island.is/Stydjum/74

Höfundur er stærðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×