Asíski risageitungurinn hefur nú fundið sér leið alla leið til Bandaríkjanna og hafa fulltrúar yfirvalda í Washington-ríki á vesturströnd landsins unnið að því síðustu daga að eyða dýrunum með aðstoð gildra, ryksuga og staðfestningartækja. Er þetta gert fyrst og fremst til að vernda hunangsbý landsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem asískir risageitungar (Vespa mandarinia) nema land í Bandaríkjunum og hafa komið upp búi svo vitað sé.
Um leið og ábendingar komu inn á borð landbúnaðaryfirvalda í Washington-ríki um asíska risageitunga var hafist handa við að leggja fyrir þá gildrur.
Þegar búið var að ná þremur geitungum lifandi var litlum staðsetningarbúnaði komið fyrir á þeim og þeim sleppt lausum. Þannig var hægt að finna bú þeirra.
Asíski risageitungurinn er mjög ágeng tegund sem getur eyðilagt heilu býflugnabúin á innan við klukkustund. Alls er nú búið að ná 98 risageitungum hið minnsta og hafa þeir verið sendir til rannsóknar.

Á vef Vísindavefs Háskóla Íslands segir að náttúruleg heimkynni asíska risageitungsins séu á heittempruðum svæðum í austurhluta Asíu, nánar tiltekið í Japan, Kína, í Prímorskí-héraði Rússlands og á Kóreuskaga. Auk þess teygi hann útbreiðslu sína suðvestur eftir Asíu, inn í þétta skóga Indókína og Taívan. Tegundin er þó langalgengust í fjalllendi Japans.