Fótbolti

Tryggvi Hrafn skoraði í upp­gjöri topp­liðina | Sverrir Ingi enn ó­sigraður í Grikk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi og félagar hafa ekki enn tapað leik á leiktíðinni heima fyrir.
Sverrir Ingi og félagar hafa ekki enn tapað leik á leiktíðinni heima fyrir. Andrei Shramko/Getty Images

Lillestrøm er komið upp í annað sæti norsku B-deildarinnar eftir 3-0 sigur á toppliði Tromsø í dag. Tryggvi Hrafn Haraldsson var meðal markaskorara. PAOK, lið Sverris Inga Ingasonar, vann mikilvægan sigur í grísku úrvalsdeildinni. Sverrir Ingi og félagar hafa ekki enn tapað leik.

Gott gengi Lillestrøm í norsku B-deildinni heldur áfram en liðið fékk Tromsø í heimsókn í dag. Leikurinn verður seint sagður hafa verið spennandi en Fredrik Krogstad hafði skorað tvívegis á fyrstu 14 mínútum leiksins og staðan því orðin 2-0 Lillestrøm í vil.

Þannig var staðan fram að hálfleik. Tryggvi Hrafn skoraði strax í upphafi þess síðari og gerði í raun út um leik dagsins. Björn Bergmann Sigurðarson kom svo af varamannabekk liðsins á 68. mínútu og því voru tveir Íslendingar inn á hjá Lillestrøm þangað til Tryggvi var tekinn af velli þegar tíu mínútur voru eftir.

Lokatölur 3-0 Lillestrøm í vil og liðið nú aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Tromsø. Þá á Lillestrøm leik til góða.

Sverrir Ingi var á sínum stað í hjarta varnarinnar hjá PAOK er liðið heimsótti Panetolikos. Fór það svo að gestirnir unnu gríðar mikilvægan 3-1 sigur. Nika Ninua skoraði annað mark PAOK þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og Antonio Čolak gulltryggði sigurinn með þriðja marki liðsins þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Sigurinn lyftir PAOK upp í 3. sæti deildarinnar með þrjá sigra og þrjú jafntefli í fyrstu sex leikjum deildarinnar. Liðið hefur ekki enn tapað leik.

Sverrir Ingi lék allan leikinn í vörn PAOK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×