Herdís Fjeldsted hefur verið ráðin forstjóri Valitor og mun ekki taka þátt í störfum stjórnar Arion banka að svo stöddu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Herdís Fjeldsted sem tók í marsmánuði tímabundið við við starfi forstjóra Valitor hefur verið ráðin í starfið ótímabundið. Herdís tók við starfinu af Viðari Þorkelssyni sem hætti störfum eftir áratug í starfi.
Herdís, sem jafnframt er varaformaður stjórnar Arion banka, mun að svo stöddu ekki taka þátt í störfum stjórnar bankans, segir í tilkynningunni.
Starfsmönnum Valitor fækkaði um sextíu í upphafi árs en um fjöldauppsögn var að ræða til að snúa við viðvarandi taprekstri félagsins árin á undan, að því er fram kom í tilkynningu í mars.