Frétta- og mannlífsvefurinn Akureyri.net hefur fjallað um fálkadauðann undanfarið. Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að yfirleitt þegar fálkar finnist dauðir sé um unga að ræða. Óvenjulegt sé að stálpaðir fálkar finnist dauðir.
Hinir fullorðnu fálkar fundust annars vegar á Akureyri, tveir þeirra, og hins vegar í útjaðri byggðar á Seyðisfirði. Ólafur segir helstu tilgátu sína þá að rjúpnaleysi sé um að kenna.
„Þá leita fuglarnir fanga á svæðum þar sem þeir eru ekki vanir að athafna sig. Fuglinn sem fannst á Ólafsvík [sem var ungi] var illa brotinn eftir að hafa flogið á girðingu og honum varð að lóga. Þar hafði smáfuglum verið gefið og hann virðist hafa ætlað að veiða sér til matar; þegar fálkinn veiðir kemur er oft á mikilli ferð til að koma bráðinni á óvart en þarna þekkti hann ekki aðstæður og flaug á girðingu,“ segir Ólafur við Akureyri.net.
Hámaði í sig hettumáv
Fuglar á andapollinum á Akureyri hafi dregið fálkann sem fannst dauður við pollinn þangað. Líklega hafi hann flogið á girðingu.
„Girðingar og línur reynast fálkanum oft hættulegar þegar hann stundar sína loftfimleika inni í bæjum. Aðal bráð fálkans er rjúpa en þeir taka allt frá þúfutittlingum upp í grágæsir. Og þegar mjög hart er í ári fara þeir í hræ, ekki bara fugla heldur líka kinda og þess háttar.“
Fálki gerði sig heimankominn í Fossvoginum á dögunum og auk hraustlega til matar síns. Hettumávur varð á vegi fálkans sem var hinn rólegasti á matarborðinu í garði Þórdísar Bragadóttur.
Hann var hins vegar svo þungur á sér eftir veisluna að hann komst ekki á flug. Kallað var á fuglavin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og stóð til að fálkinn fengi inni í Húsdýragarðinum yfir nótt.