Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins.
Þá segir í svarinu að fyrirhugað sé að bæturnar, sem áætlað er að verði um 200 milljónir króna, verði greiddar með sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir 123,3 milljóna fjárveitingu í fjárlagaliðinn greiðslu vegna varna gegn dýrasjúkdómum en mögulega þarf að endurskoða þá fjárhæð þegar fyrir liggur hvernig bótagreiðslur vegna riðunnar muni skiptast milli ára.
Þá tekur ráðherra fram í svarinu að bætur vegna riðunnar hafi ekki enn verið greiddar en nú standi yfir vinna við að reikna þær út.
Sex varnarhólf á landinu teljast nú sýkt hólf eftir að riðuveiki kom upp á nokkrum bæjum í Skagafirði í nóvember. Skera þurfti niður fé í þúsundatali vegna riðunnar nú í vetur og nokkrir bændur því orðið af lifibrauði sínu.