Erlent

FKA twigs kærir Shia LaBeouf fyrir heimilis­of­beldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tónlistarkonan FKA twigs hefur lagt fram kæru á hendur fyrrverandi kærasta sínum Shia LaBeouf þar sem hún sakar hann um að hafa beitt sig ítrekað ofbeldi.
Tónlistarkonan FKA twigs hefur lagt fram kæru á hendur fyrrverandi kærasta sínum Shia LaBeouf þar sem hún sakar hann um að hafa beitt sig ítrekað ofbeldi. Getty/ Jim Dyson

Tónlistarkonan FKA twigs hefur kært fyrrverandi kærasta sinn leikarann Shia LaBeouf fyrir að hafa beitt hana „ótæpilegu ofbeldi“ á meðan á sambandi þeirra stóð. Hollywood Reporter greinir frá þessu.

Fram kemur í ákærunni að á meðan á sambandi þeirra stóð hafi LaBeouf ítrekað beitt tónlistarkonuna kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi og andlegu ofbeldi. Þá hafi leikarinn einnig viljandi smitað FKA twigs, sem heitir réttu nafni Tahliah Barnett, af kynsjúkdómi.

Shia LaBeouf er sagður hafa ítrekað beitt kærustur sínar ofbeldi.Getty/Toni Anne Barson

Lögmaður Barnett sagði í dag að leikarinn hafi ítrekað beitt konur sem hann hefur átt í sambandi við ofbeldi.

„Við reyndum að leysa úr málinu án aðkomu dómstóla, með því skilyrði að LeBouf myndi sækja sér sálfræðiaðstoð,“ sagði Bryan Freedman, lögmaður Barnett, í samtali við Hollywood Reporter.

„Hann var ekki tilbúinn til þess að samþykkja þá skilmála og sækja sér viðeigandi aðstoð og þess vegna hefur Barnett lagt fram ákæru til þess að koma í veg fyrir að aðrir verði fyrir sama ofbeldi,“ bætti hann við.

Önnur fyrrverandi kærasta LaBeouf, Karolyn Pho stílisti, er nefnd í ákærunni og hún sögð hafa orðið fyrir ofbeldi á meðan á sambandi hennar og LaBeouf stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×