Þegar það eru liðnir átta mánuðir síðan þú varst síðast á Íslandi þá getur verið nóg að gera hjá þér ekki síst þegar ert ein af fimmtíu stærstu íþróttastjörnum heims þegar kemur að markaðsvirði í auglýsingaheiminum.
Íslenska CrossFit stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir var í 45. sæti yfir það íþróttafólk heimsins sem er með seljanlegustu ímyndina og það eru margir auglýsendur sem vilja láta kenna sig við hana.
Katrín Tanja er heima á Íslandi allan jólamánuðinn og hefur haft í nógu að snúast.
Katrín Tanja gaf fylgjendum sínum innsýn í líf sitt sem fyrirsætu með því að birta myndbönd frá því bak við tjöldin þegar hún tók upp auglýsingu fyrir Dropa í gær.
Katrín Tanja sést þar út í íslensku náttúru en hún og upptökufólkið þurfti auðvitað að hafa hraðar hendur enda ekki bjart í marga klukkutíma á Íslandi á þessum tíma ársins.
Það mátti líka sjá að kuldinn var aðeins að stríða þeim og þá er gott að vera í jafngóðu formi og Katrín Tanja sem hoppaði um á milli taka.
„Það var rosalega kalt en þá er oftast fallegasta veðrið. Ég er full aðdáunar yfir því hversu fallegt landið mitt er,“ skrifaði Katrín Tanja.
Það má sjá færslu hennar og öll myndböndin hér fyrir neðan.