Skoðun

Ef einhvern tímann er þörf...

Erna Reynisdóttir skrifar

Opið bréf til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra varðandi netverslun með áfengi

Kæra Áslaug Arna,

Barnaheill þakka fyrir svar þitt við síðasta erindi okkar til þín. Í tilefni af twitter færslu þinni um að ef einhverntímann væri þörf á netverslun með áfengi væri það núna, vilja Barnaheill árétta:

Ef einhvern tímann er EKKI þörf fyrir..

  • aukna hættu á heimilisofbeldi
  • aukna hættu á ofbeldi gegn börnum
  • aukna hættu á að börn búi við vanrækslu
  • hættu á auknum kvíða barna og andlegum áföllum

... þá er það núna.

Barnaheill hafa ekki aðeins áhyggjur af aðgengi barna og ungmenna að áfengi, heldur ekki síður af auknu aðgengi foreldra að áfengi. Aukið aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar neyslu þess, eins og fram kom í síðasta bréfi Barnaheilla til þín. Rannsóknir sýna að aukin áfengisneysla foreldra hefur neikvæð áhrif á börn.

Áfengisneysla slævir huga og dómgreind fólks. Áfengisneysla þeirra foreldra sem nú þegar stunda hana stjórnlaust færist meira inn á heimilin sökum samkomubanns. Það ástand eykur álag á börn umtalsvert og kvíði þeirra eykst við að sjá foreldra sína í annarlegu ástandi. Með þessu er ekki verið að segja að enginn geti haft áfengi um hönd. En áfengi á ekki að hafa um hönd í kringum og innan um börn.

Barnaheill skora á þig að bæta ekki á vanda barna sem búa við óöruggar uppeldisaðstæður með því að auka aðgengi enn frekar að áfengi en nú er orðið. Börn geta ekki valið sér heimilisaðstæður og það búa ekki öll börn við heimilisfrið. Börn eiga hins vegar rétt á vernd gegn ofbeldi og vanrækslu, án mismununar. Stjórnvöld þurfa því að tryggja sérstaklega vernd barna í óviðunandi aðstæðum gegn aukinni áfengisneyslu, vegna hinna neikvæðu afleiðinga sem af henni hljótast.

Nú er brýnt að við sem samfélag finnum allar þær jákvæðu leiðir sem fyrirfinnast til að vinna saman á þessum tímum og að aðstoða allt samfélagið í gegnum erfiða stöðu vegna Covid 19.

Ef einhvern tímann er þörf fyrir að standa með börnum, þá er það núna.

Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja sérstaka áherslu á vernd gegn ofbeldi og vanrækslu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×