Skoðun

Rannsökum líka þetta hrun

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

Ég legg til að við ákveðum hér og nú, að sett verði á fót rannsóknarnefnd sem mun gera upp þær efnahagslegu aðgerðir sem nú er ráðist í vegna hrunsins. Þannig tilkynning, á þessum tímapunkti, að þetta hrun og ekki síst viðbrögðin við því, verði rannsökuð mun virka sem öflugt aðhald á þær efnahagslegu ákvarðanir sem nú eru teknar og verða teknar á næstu mánuðum.

Hvaða fyrirtæki lifa og deyja?

Nú er allt samfélagið í rústabjörgun og óvissan er mikil. Kynntir eru aðgerðarpakkar stjórnvalda og bankar ráðast í alls konar aðgerðir gagnvart fyrirtækjum og fólkinu í landinu. Stórkostleg tilfærsla á fjármunum mun eiga sér stað og ákvarðanir um hvaða fyrirtæki lifa og hvaða fyrirtæki munu deyja verða teknar. Þá munu fjármunir og störf glatast og margs konar lobbýsimi fyrir sérhagsmunum mun eiga sér stað.

Nú eru rúm 11 ár síðan bankahrunið var. Í því hruni fór margt úrskeiðis, tæplega 30 íslenskir bankamenn voru dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi. Sumar aðgerðir stjórnvalda og banka urðu mjög umdeildar. Þá var hins vegar ákveðið að setja á fót öfluga rannsóknarnefnd sem hafði nánast ótakmarkaðar heimildir til að gera upp málin, bankaleynd var afnumin og sérstakt embætti saksóknara tók til starfa. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu skipti samfélagið miklu máli.

Tilkynnum um rannsókn núna

Þótt þessi tvö hrun séu eðlisólík og ekkert bendir til brota á lögum í þessu hruni sem nú gengur yfir, er ljóst að margar ákvarðanir stjórnvalda og annarra aðila verða umdeildar. Sumir munu fá fyrirgreiðslu á kostnað almennings en aðrir ekki. Gagnsæi verður því að vera lykilorðið í öllum þeim aðgerðum sem nú standa yfir og eru framundan. Án gagnsæis verður ekki traust á aðgerðunum og þeirri uppbyggingu sem við munum öll standa frammi fyrir.

Þó að orsakir þessa hruns séu mun ljósari en orsakir síðasta hruns stendur eftir að aðgerðirnar sem stjórnvöld og fyrirtæki ráðast í vegna þessa hruns þurfa að koma til skoðunar. Það skiptir einnig máli að 2 af 3 stærstu viðskiptabönkunum eru ríkisbankar og þurfa því allar aðgerðir bankanna sérstaklega að vera hafnar yfir allan vafa.

Nú er því rétti tíminn að ákveða að öllum steinum verður velt í framtíðinni. Þannig tryggjum við best gagnsæi en ekki síst jafnræði í þeim aðgerðum sem nú eru ákveðnar.

Höfund er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×