Sport

Sara Sigmundsdóttir með „minime“ á heiðursæfingu fyrir hetjurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmunsdóttir og Erla á æfingunni en þessi mynd er af Instagram síðu Söru sem er með 1,7 milljón fylgjendur.
Sara Sigmunsdóttir og Erla á æfingunni en þessi mynd er af Instagram síðu Söru sem er með 1,7 milljón fylgjendur. Skjámynd/Instagram

Íslenska CrossFit drottningin Sara Sigmunsdóttir lét ekki sitt eftir liggja þegar CrossFit heimurinn sameinaðist og gerði æfingu til heiðurs fólksins í heilbrigðiskerfinu sem stendur í fremstu víglínu í baráttunni við kórónuveiruna.

CrossFit fólkið gerði svokallaða „NHS hero wod“ eða æfingu fyrir hetjurnar úr heilbrigðiskerfinu. Það er erfitt ástand á sjúkrahúsum heimsins þessa dagana enda álagið mikið vegna COVID-19 og læknar og hjúkrunarfólk að leggja líf sitt í hættu í því að bjarga öðrum sem eru langt leidd af COVID-19 sjúkdómnum.

Sara Sigmundsdóttir var klár í slaginn og gerði þessa „NHS hero wod“ með glæsibrag.

Sara mætti líka til leiks með ungar aðstoðarkonur eins og hún sagði frá á Instagram síðu sinni eins og sjá má hér fyrir neðan.

Sara var nefnilega með þær Erlu og Thelmu með sér en í tilefni af afmæli Erlu þá var hún klædd alveg eins og hetjan sín Sara Sigmundsdóttir.

„Æfingafötin okkar voru plönuð af því að þetta var afmælisdagur Erlu. Thelma fær sinn æfingabúning á sínum afmælisdegi,“ skrifaði Sara við myndirnar.

Þar má líka sjá litlu stelpurnar reyna að apa eftir Söru í æfingasalnum.

Sara sér líka húmorinn í þessu og merkir færslu sína meðal annars með „minime“ en þar vísar hún í frægan karakter úr myndunum um Austin Powers.

Það er ljóst að þær Erla og Thelma eiga sér flotta fyrirmynd í Söru Sigmundsdóttur sem var búin að eiga frábær CrossFit tímabil þegar allt stoppaði vegna kórónuveirunnar.

Mótshaldarar hafa verið að fresta hverju CrossFit mótinu á fætur öðru að undanförnu og það er mikil óvissa með framhaldið. Heimsleikarnir í ágúst gætu líka orðið fórnarlamb kórónuveirunnar dragist ástandið langt fram á sumar.

Það eru samt enn fjórir mánuðir þangað til og vonandi gengur kórónuveirufaraldurinn yfir á þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×