Enski boltinn

Ancelotti og Hoddle gefa Chelsea föðurleg ráð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Carlo Ancelotti er nú stjóri Everton eftir að hafa þjálfað Chelsea fyrir tíu árum síðan.
Carlo Ancelotti er nú stjóri Everton eftir að hafa þjálfað Chelsea fyrir tíu árum síðan. Robin Jones/Getty Images

Pressan er mikil á Frank Lampard, stjóra Chelsea. Liðið hefur gengið afleitlega að undanförnu og ekki minnkaði pressan eftir 3-1 tapið gegn Manchester City um helgina. Tveir þaulreyndir stjórar segja þó Chelsea að gefa Lampard tíð og tíma.

Lampard er efstur á lista veðmálasíðna um hvaða stjóri verður næst rekinn en hann eyddi meira en 200 milljónum punda í leikmenn eins og Kai Havertz, Timo Werner og Ben Chilwell í sumar.

Carlo Ancelotti, stjóra Gylfa Sigurðssonar hjá Everton, veit allt um pressuna sem fylgir því að stýra Chelsea. Ancelotti var rekinn eftir titlalaust tímabil 2011/2012 þrátt fyrir að hafa unnið enska bikarinn og endað í öðru sæti deildarinnar árið áður.

„Þeir keyptu leikmenn í sumar og eins og hjá Juventus þá þarf þolinmæði sem er sjaldgæft í fótboltanum,“ sagði Ancelotti í samtali við Gazzette dello Sport. Fyrrum miðjumaður Chelsea, Glenn Hoddle, tók í svipaðan streng.

„Það verður að gefa honum tíma. Þetta er verkefni sem tekur tíma hjá Chelsea. Þeir eru að tapa gegn stóru liðunum og þeir þurfa andlega styrkinn til þess að komast yfir það,“ sagði Hoddle og hélt áfram.

„Þeir líta betur út gegn minni liðunum en á þessum tímapunkti virðast þeir ekki tilbúnir í að vinna deildina. Þeir eru með hæfileikana í hópnum en þetta mun taka tíma. Þú verður bara að vona að eigandinn hafi líka þá skoðun.“

Chelesa mætir Morecambe í enska bikarnum um helgina áður en þeir spila svo gegn Fulham um næstu helgi í ensku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×