Í skýrslunni eru 99 tillögur um hvernig megi efla tengslin milli Íslands og Grænlands en fjallað er um málið í frétt Stöðvar 2. Ráðherrann segist hafa fengið Össur til verksins vegna bæði þekkingar hans og ástríðu á málefnum Grænlendinga. Með honum í nefndinni voru Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttar Guðlaugsson.

Eftir vinnslu skýrslunnar segir Össur eitt standa upp úr.
„Það er sóknarhugur í Grænlandi og mér finnast Grænlendingar sem þjóð og tilvonandi sjálfstætt ríki vera að hrökkva í gírinn.“
Og nefnir sem dæmi þann kraft sem er í uppbyggingu sjávarútvegs, flugvallagerð og námavinnslu.
En Grænland er einnig í sviðsljósinu vegna stóraukins áhuga stórveldanna á landinu sem og Norðurslóðum.
„Aukið samstarf Íslands og Grænlands mun færa báðum löndunum ávinning, bæði pólitískan en líka efnahagslegan,“ segir Össur.

Ráðherrann er strax byrjaður að undirbúa rammasamning milli landanna og þingsályktunartillögu.
„Það hefur alltaf verið þörf fyrir það að við vinnum náið saman, þessi lönd. En aldrei meira heldur en núna,“ segir Guðlaugur Þór.
„Grænland hefur verið hið gleymda land á okkar svæði en er hins vegar að koma alveg óðfluga fram á sviðsljósið vegna þess að það hefur algera sérstöðu í mörgum efnum,“ segir Össur.
„Þetta eru okkar næstu nágrannar og möguleikarnir á samstarfi okkar á milli eru gríðarlega miklir. Það mun styrkja báða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: