Fulltrúadeildin ákærði Trump á dögunum fyrir að hafa hvatt til uppreisnar, en stuðningsmenn hans réðust á þinghúsið í Washington með þeim afleiðingum að fimm létust. Repúblikanar í öldungadeild þingsins höfðu farið fram á að réttarhöldunum yrði frestað fram í febrúar svo Trump gæti undirbúið varnir í málinu.
„Ég hef heyrt nokkra kollega mína úr Repúblikanaflokknum færa rök fyrir því að réttarhöld brytu í bága við stjórnarskrá þar sem Donald Trump er ekki lengur í embætti. Það er röksemdarfærsla sem hefur verið hafnað af hundruðum fræðimanna,“ sagði Schumer í þinginu í dag.
Hann sagði jafnframt að réttarhöldin færu fram með sanngjörnum hætti og að fulltrúadeildin myndi afhenda öldungadeildinni ákæruna á mánudag.
Trump er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem er ákærður til embættismissis í tvígang. Komandi réttarhöld í öldungadeildinni verða sömuleiðis þau einu sinnar tegundar í sögunni, sem fram fara eftir að forseti Bandaríkjanna hefur látið af embætti, en innsetningarathöfn Joe Biden Bandaríkjaforseta fór fram á miðvikudag.