Enski boltinn

„Fjöl­leika­húsið heldur á­fram“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá Stamford Bridge í kvöld.
Frá Stamford Bridge í kvöld. Richard Heathcote/Getty Images

Einhverjir stuðningsmenn Chelsea virðast ekki vera ánægðir hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hjá félaginu en hengdur var upp borði fyrir utan heimavöll félagsins eftir að Frank Lampard var rekinn á mánudag.

Chelsea goðsögninni var vikið úr starfi á mánudag eftir einungis átján mánuði í starfi. Slakt gengi Chelsea á leiktíðinni varð banabiti hans en liðið er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eins og er. Thomas Tuchel er arftaki hans.

Lampard er ekki fyrsti og væntanlega ekki síðasti stjórinn sem Roman Abramovich rekur úr stjórastólnum hjá Chelsea. Lampard var númer tíu í röðinni og ef marka má borða fyrir utan heimavöll félagsins hafa einhverjir stuðningsmenn fengið nóg.

„Fjölleikahúsið heldur áfram,“ stóð á borða fyrir utan Stamford Bridge en Chelsea hafði tapað fjórum af síðustu átta leikjum liðsins í deildinni. Kveikt var á blysum í kringum borðann og fyrrum miðjumanni félagsins sýndur stuðningur.

Þegar borðinn var hengdur upp voru einungis nokkrir tímar þangað til að sá þýski Tuchel stýrði sínum fyrsta leik en Chelsea mætir Wolves á heimavelli núna. Leikurinn stendur yfir. Tuchel náði einni æfingu með Lundúnarliðið áður en kom að leik kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×