Skoðun

Læknamistök

Davíð Þór Þorvaldsson skrifar

Ég hef aldrei verið hrifinn af orðinu sem hér er notað sem fyrirsögn. Öll gerum við mistök, líka læknar. En þegar margþætt og flókin þjónustu er veitt, líkt og heilbrigðisþjónusta, eru önnur og fleiri atriði sem geta komið upp. Má þar nefna í dæmaskyni fylgikvilla meðferðar, vangreining á sjúkdómum og val á þeirri meðferð sem beitt er. Öll þessi tilvik eru gjarnan flokkuð sem læknamistök í daglegu tali en eru í raun sjúklingatryggingaratvik þó að hluta þeirra megi sannarlega rekja til mistaka. Þannig er hægt að verða fyrir sjaldgæfum og alvarlegum fylgikvilla í aðgerð sem framkvæmd er á faglegan máta.

Sjúklingatrygging

Sjúklingatrygging er lögbundin og sjálfstæð trygging sem fæstir kannast við enda hefur hún ekki verið kynnt sem skyldi síðan lög um sjúklingatryggingu tóku gildi í upphafi árs 2001. Ég hef reyndar sjaldan hitt einstakling sem kannast við trygginguna án þess að hafa þurft að nýta sér hana, það er mjög miður. Lýsa má tryggingunni með nokkurri einföldun að hún komi til skoðunar þegar sjúklingur verður fyrir tjóni vegna mistaka heilbrigðisstarfsfólks en jafnvel mikilvægara er að hún tekur einnig á öðrum þáttum, svo sem alvarlegum og sjaldgæfum fylgikvillum, því að meðferð var ekki hagað eins vel og unnt hefði verið og ef beita hefði mátt annarri meðferð og þannig komast hjá tjóni.

Sjúklingatrygging er ekki trygging sem einstaklingar þurfa að kaupa, hún er til staðar og hefur verið það frá árinu 2001. Ólíkt því sem almennt gerist þegar sækja á bætur fyrir tjón þá þarf tjónþoli ekki að sanna vanrækslu, mistök eða nokkra aðra vankanta á meðferð. Slíkt kemur auðvitað líka til skoðunar en sjúklingatrygging er í raun trygging sem ríkið ákvað að veita sjúklingum til að grípa afmörkuð tilvik sem upp koma og eru almennt ekki bótaskyld samkvæmt skaðabótalögum.

Vert er að nefna að heilbrigðisráðherra lagði nýverið fram frumvarp sem nú er orðið að lögum sem fellir mögulegar afleiðingar af bólusetningu vegna COVID-19 inn í trygginguna en almennt er tjón vegna lyfja ekki bætt á grunni laganna. Þau sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna bólusetningar fyrir COVID-19 ættu því að kanna rétt sinn á grunni laga um sjúklingatryggingu. Mikilvægt skref og framsækið hjá ráðherra.

Þetta kann að virðast flókið við fyrstu sýn enda geta mál sem þessi sannarlega verið það en aðalatriðið er að lesendur taki þá vitneskju frá lestrinum að til sé trygging sem heitir sjúklingatrygging og að hún komi til skoðunar þegar heilbrigðisþjónusta fer ekki á þann veg sem stemmt var að og tjón verður.

Þau sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni sem fallið gæti undir sjúklingatryggingu er bent á að skila inn umsókn til Sjúkratrygginga Íslands. Sé viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður sjálfstætt starfandi er leitað til tryggingarfélags viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns. Umsókn er án kostnaðar fyrir umsækjanda ef viðkomandi sér sjálfur um að tilkynna málið og fylgja því eftir. Rétt er að taka fram að málin geta verið nokkuð flókin og því gjarnan tafsöm eins og önnur mál sem varða líkamstjón.

Höfundur er lögfræðingur og sérfræðingur í sjúklingatryggingu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×