Breska flugmálastjórnin aflétti flugbanninu einnig sama dag og sú evrópska. Þar með hafa allar helstu flugöryggisstofnanir á Vesturlöndum heimilað flug vélanna en áður voru Bandaríkin, Kanada og Brasilía búnar að samþykkja flug þeirra. Þetta þýðir að allir áætlunarstaðir Icelandair eru komnir með grænt ljós á Maxinn.
![](https://www.visir.is/i/97DE3482C01F229AB639FA4504D32AA37327CB1243861736AAEF5B56A486C2DF_713x0.jpg)
Fimm af sex MAX vélum Icelandair hafa verið í geymslu á Spáni undanfarin misseri en þangað var þeim fyrstu flogið í október 2019. En núna styttist í að þær verði sóttar þangað aftur. Undirbúningur fyrir ferjuflug til Íslands er hafinn.
„Gert er ráð fyrir að tvær vélar verði ferjaðar til Íslands seinnipartinn í næstu viku,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.
„Fjórir Icelandair-flugmenn hafa að undanförnu farið í gegnum umfangsmikla þjálfun, bæði bóklega og í flughermi, og eru tilbúnir í þetta verkefni."
![](https://www.visir.is/i/60EF0F0799F41A52DA97E387925A8D19FDEC13AF41E35CF8553FFA97D0693DAE_713x0.jpg)
„Samkvæmt kröfum flugmálayfirvalda verða ákveðin viðhaldsverk framkvæmd áður en vélarnar verði fluttar til landsins. Þegar hingað er komið taka við áframhaldandi uppfærslur á vélunum og þjálfun flugmanna,“ segir Ásdís.
Áður hefur komið fram að Icelandair gerir ráð fyrir að taka vélarnar aftur í rekstur á vormánuðum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá 11. október 2019 þegar fyrstu MAX-vél Icelandair var flogið til geymslu á Spáni: