Fótbolti

Vildi sem minnst tjá sig um Kjartan

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kjartan Henry í baráttunni með Horsens á leiktíðinni gegn Bröndby. Nú hefur hann samið við Esbjerg.
Kjartan Henry í baráttunni með Horsens á leiktíðinni gegn Bröndby. Nú hefur hann samið við Esbjerg. Ulrik Pedersen/Getty

Jens Berthel Askou, þjálfari AC Horsens, hafði ekki mikinn áhuga á því að ræða ákvörðun Kjartans Henrys Finnbogasonar eftir leik Horsens gegn Randers í gær. Ákvörðun Kjartans hefur vakið mikið umtal í Danmörku.

Kjartan rifti samningi sínum við Horsens um liðna helgi og virtist á heimleið en á mánudaginn samdi hann svo við danska B-deildarliðið Esbjerg og verður áfram í Danmörku. Þetta hefur vakið reiði hjá einhverjum en þjálfarinn missti ekki svefn yfir málinu.

„Ég hef í raun ekki eytt neinum tíma í þetta því ég hef verið með heilt lið sem ég þurfti að undirbúa. Kjartan vildi prufa eitthvað annað og við berum virðingu fyrir því. Við hjálpuðum honum að leysa það því hann vildi það svo mikið,“ sagði Askou eftir 3-0 tapið gegn Randers í fyrsta leik Horsens eftir jólafrí í gær.

„Hvað hann svo gerir eftir það hef ég ekki eytt neinum tíma í. Ég hef notað tímann í þá leikmenn sem gjarnan vilja vera í Horsens og hjálpa þeim fyrir leikinn. Svo þetta hefur tekið mjög, mjög lítinn tíma frá mér og þannig er það.“

Askou tók við Horsens liðinu í janúar eftir að fyrrum þjálfari liðsins var rekinn. Askou starfaði síðast hjá HB í Færeyjum, á síðasta ári, þar sem hann var arftaki Heimis Guðjónssonar. Aðspurður um hvort þetta væri vanvirðing af Kjartani svaraði Askou:

„Ég vil ekki tjá mig um það. Eins og ég sagði var leikur sem ég þurfti að einbeita mér að. Kjartan hefur átt frábæran feril í Horsens og nú er hann farinn. Hann hefur auðvitað gert það sem var gott fyrir hann. Við stýrum því ekki og það í raun skiptir engu. Við einbeitum okkur að þeim sem vilja vera hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×