Leikur kvöldsins var mikil skemmtun en það voru HK-ingar sem byrjuðu mun betur. Miðjumaðurinn margslungni Ólafur Örn Eyjólfsson kom þeim yfir og sóknarmaðurinn Stefán Alexander Ljubicic tvöfaldaði forystu Kópavogsbúa fyrir hálfleik, staðan þá 2-0.
FH-ingar sneru bökum saman í síðari hálfleik og Jónatan Ingi Jónsson minnkaði muninn skömmu eftir að leikurinn var flautaður aftur á. Skotinn magnaði Steven Lennon jafnaði svo metin í 2-2 eftir að Örvar Eggertsson hafði fengið rautt spjald í liði HK.
Það var svo hinn ungi Einar Örn Harðarson sem tryggði FH sigur en hann verður tvítugur á þessu ári. Úrslitaleikur mótsins er svo annað kvöld en þar mætast Breiðablik og ÍA.