Swan­sea engin fyrir­staða fyrir sterkt lið City

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jesus skoraði eitt af þremur mörkum City í kvöld.
Jesus skoraði eitt af þremur mörkum City í kvöld. Nick Potts/Getty

Manchester City er komið í átta liða úrslit enska bikarsins eftir 3-1 sigur á B-deildarliðinu Swansea er liðin mættust í Wales í kvöld.

City stillti upp sterku liði, eins og Pep Guardiola gerir venjulega í enska bikarnum, en Spánverjinn ber mikla virðingu fyrir þeirri elstu og virtustu, eins og hún er oft kölluð.

Fyrirgjöf Kyle Walker eftir hálftíma leik varð að fyrsta marki leiksins. Bæði Fernan Torres og Gabriel Jesus reyndu að slæma fæti í boltann en inn fór boltinn.

Þannig stóðu leikar í hálfleik en strax í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði Raheem Sterling forystuna eftir góða sendingu Rodri.

Fjallið sem Swanesa þurfti að klífa varð enn hærra á 49. mínútu er Gabriel Jesus kom City í 3-0. Bernardo Silva skallaði boltann fyrir fætur Brassans sem skoraði.

Swansea klóraði þó í bakkann þrettán mínútum fyrir leikslok er hinn tvítugi Morgan Whittaker skoraði með glæsilegu skoti. Þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið en lokatölur 3-1.

City er því komið í átta liða úrslitin ásamt Man. United og Burnley sem tryggðu sér sæti í gær. Í kvöld eru svo þrír aðrir leikir; Leicester gegn Brighton, Sheffield United gegn Bristol og Everton gegn Tottenham.

Umferðinni lýkur svo annað kvöld með leikjum Wolves og Southampton annars vegar og Barnsley og Chelsea hins vegar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira