Vegna kórónuveirufaraldursins mættust liðin aðeins einu sinni en ekki tvisvar og það á heimavelli Brøndby. Ingibjörg lék allan leikinn fyrir Vålerenga sem varð tvöfaldur meistari í Noregi á síðasta tímabili.
Norsku meistararnir komust yfir á 16. mínútu þegar Dejana Stefanovic skoraði úr vítaspyrnu. Staðan var 0-1 allt fram á 78. mínútu þegar Josefine Hasbo jafnaði fyrir Brøndby. Því þurfti að framlengja.
Liðunum tókst ekki að skora í framlengingunni og því var farið í vítaspyrnukeppni. Ingibjörg tók fyrstu spyrnu Vålerenga og skoraði úr henni.
Sigurdardottir scorer, 1-0
— Vålerenga Fotball Kvinner (@VIFDamer) February 11, 2021
Stefanovic klúðraði annarri spyrnu Vålerenga og reyndist það eina mislukkaða spyrnan í vítakeppninni sem Brøndby vann, 5-4.
Danska liðið er því komið sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. Dregið verður í þau á þriðjudaginn. Leikirnir í sextán liða úrslitunum fara fram 3. og 4. mars og 10. og 11. mars.