Liver­pool kastaði frá sér sigrinum og tapaði þriðja leiknum í röð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fúlir Púlarar.
Fúlir Púlarar. Michael Regan/Getty

Leicester vann 3-1 sigur á ensku meisturunum í Liverpool í hádegisleiknum í enska boltanum. Markalaust var í hálfleik, Liverpool komst yfir en Leicester svaraði með þremur mörkum.

Ozan Kabak var kominn inn í byrjunarlið Liverpool en hann var keyptur til Liverpool í janúar. Hann spilaði í miðri vörn Liverpool ásamt Jordan Henderson.

Það var góður kraftur í Liverpool í fyrri hálfleik. Þeir fengu góð færi og besta færið fékk Roberto Firmino á 26. mínútu en hinn danski Kasper Schmeichel sá við honum með magnaðri markvörslu.

Leicester fékk líka sín tækifæri. Jamie Vardy slapp einn fyrir á 42. mínútu en þrumuskot hans fór í slá og yfir. Staðan var markalaus í hálfleik en leikurinn langt því frá að vera leiðinlegur.

Áfram hélt Liverpool að stýra leiknum og Trent Alexander-Arnold þrumaði boltanum í slá úr aukaspyrnu á 57. mínútu en tíu mínútum síðar kom fyrsta markið. Mo Salah skoraði þá með góðu skoti eftir frábæra stoðsendingu Firmino.

Ellefu mínútum jöfnuðu heimamenn metin. Dæmd var vítaspyrna en brotið var fært úr fyrir teiginn. Úr aukaspyrnunni skoraði James Maddison en markið var svo dæmt af vegna rangstöðu. Það var svo tekið til baka og markið stóð.

Einungis þremur mínútum síðar voru heimamenn komnir yfir. Löng sending inn fyrir vörn Liverpool skapaði mikinn usla því Ozan Kabak og Alisson vissu ekki hvor átti að taka boltann, Vardy fékk boltann og skoraði í autt markið.

Heimamenn voru ekki hættir. Þeir skoruðu þriðja markið á 85. mínútu er Harvey Barnes slapp einn inn fyrir eftir sendingu Wilfred Ndidi og skoraði framhjá varnarlausum Alisson. Lokatölur 3-1.

Leicester er í öðru sætinu með 46 stig en Liverpool er í fjórða sætinu með 40 stig. Þetta var þeirra þriðja deildartap í röð; gegn Brighton, City og nú gegn Leicester. Þeir eru tíu stigum á eftir toppliði Man. City sem á tvo leiki til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira