Bale skoraði tvö og lagði upp eitt í sigri Totten­ham

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bale fagnar öðru marki sínu í dag. Hann átti frábæran leik.
Bale fagnar öðru marki sínu í dag. Hann átti frábæran leik. Tottenham Hotspur FC/Getty

Tottenham rúllaði yfir Burnley, 4-0, í þriðja leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Gareth Bale fékk tækifærið í byrjunarliðinu og nýtti það vel.

Bale var búinn að koma Tottenham yfir eftir tveggja mínútna leik. Fyrirgjöf Heung-Min Son rataði beint á Bale sem kom boltanum fram hjá varnarlausum Nick Pope.

Harry Kane var búinn að tvöfalda forystu Tottenham þrettán mínútum síðar eftir frábæra sendingu Bale og Lucas Moura gerði þriðja markið á 31. mínútu.

Lundúnarliðið var 3-0 yfir í hálfleik og þeir voru ekki hættir, hvað þá Bale. Hann skoraði fjórða markið á tíundu mínútu síðari hálfleiks og innsiglaði góðan sigur Tottenham.

Tottenham er í áttunda sæti deildarinnar með 39 stig, sex stigum frá Meistaradeildarsæti, en eiga þó leik til góða á West Ham sem er í fjórða sætinu, eins og sakir standa.

Burnley er í fimmtánda sætinu með 28 stig, fimm stigum frá öruggu sæti, en Jóhann Berg Guðmundson lék ekki með Burnley vegna meiðsla.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira