Í tilkynningu á vef Bankasýslunnar segir að STJ sé einn af leiðandi sjálfstæðum ráðgjöfum á sviði útboða á hlutabréfum í Evrópu. Marel vann með sama ráðgjafafyrirtæki þegar félagið vann að tvíhliðaskráningu hlutabréfa þess í Amsterdam og á Íslandi árið 2019.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra ákvað í lok janúar að hefja sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í samræmi við tillögu Bankasýslunnar. Gert er ráð fyrir því að selja 25 til 35 prósenta hlut í bankanum en hann er nú alfarið í eigu ríkisins.
Þá hefur Bjarni sagt að stefnt verði að því að hluturinn verði í dreifðu eignarhaldi og að hámark verði sett á hlut hvers tilboðsgjafa sem gæti numið 2,5 til 3 prósentum af heildarhlutafé bankans.
42,7 prósent andvígir sölunni
Óhætt er að segja að fyrirhuguð sala ríkisins á hlut sínum í bankanum hafi reynst umdeild en samkvæmt könnun Maskínu sem unnin var fyrir fréttastofuna í febrúar eru ríflega fjórir að hverjum tíu andvígir sölunni en rúmlega fjórðungur hlynntur henni.
Þá hefur Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagt að það væri betra að bíða með söluna svo fólk fái meira traust á bankakerfinu og söluferlinu. Einnig telur hann hagstæðara fyrir ríkið að eiga Íslandsbanka og fá áfram arðgreiðslur en að selja hann og borga niður lán.
Komi til greina að bíða betri tíma
Bjarni Benediktsson hefur sagt að ríkið vilji fá sanngjarnt og gott verð fyrir hlut sinn í Íslandsbanka og til að greina komi að bíða með söluna ef markaðsaðstæður henta ekki.
„Ef markaðurinn ætlar ekki að borga það sem okkur finnst vera sanngjarnt þegar allt er tekið með í reikninginn munum við ekki halda áfram með söluna. Þá munum við bíða betri tíma. Þetta er eitt af stóru atriðunum sem þarf að leggja mat á en ég hef ágætis væntingar miðað við markaðsaðstæður almennt og styrk bankans um að við getum fengið sanngjarnt verð,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu í febrúar.
Í núverandi áætlunum er stefnt á útboð í maí eða júní en næstu mánuðir fara í undirbúning, gerð útboðslýsingar og könnunar á hug fjárfesta.
„Það verður þess vegna ekki fyrr en í maí sem við stöndum í rauninni frammi fyrir endanlegri ákvörðun en við viljum vera tilbúin til að skrá bankann þá,“ sagði Bjarni.