Hann segir skipverjana sjálfa eiga mikið lof skilið fyrir hversu vel þeim hafi tekist að hindra útbreiðslu veirunnar.
Niðurstöður skimunar frá því í fyrradag sýndu að níu þeirra hafi ekki smitast af kórónuveirunni en það var níu sólarhringum eftir komuna til Reyðarfjarðar.
„Ég veit ekki hvort það sé heppni eða hvað það segir yfirleitt en þessum tíu manna hópi sem veiktist hefur vegnað betur en maður reiknaði með. Einungis einn varð alvarlega veikur.“
Pétur vísar þarna í skipverjann sem flytja þurfti suður á Landspítalann með sjúkraflugi á sunnudag eftir að einkenni hans tóku að versna til muna.
Skipverjarnir eru allir kínverskir og höfðu verið á sjó samfellt í tvær vikur áður en skipið lagði að bryggju í Reyðarfirði. Pétur segir að sjö þeirra hafi fengið fyrstu einkenni sjúkdómsins nákvæmlega þegar vika var liðin af túrnum.

Kvíðvænlegt að vera fjarri heimahögum og ástvinum
Pétur var spurður út í andlegu hliðina á málinu; hvort það væri ekki erfitt fyrir skipverjana að vera veikir og fastir í einangrun í ókunnu landi.
Pétur svaraði því til að vissulega væri það kvíðvænlegt að vera fjarri heimahögum og ástvinum en að allir sem komi að verkefninu reyni sitt allra besta til að veita þeim eins mikið öryggi og hægt er.
„Við pössum upp á að hafa mikinn fyrirsjáanleika. Í hvert sinn sem fagmaður fer um borð til að meta ástand og heilsu þeirra – sem er daglega – þá vita þeir alltaf hvenær næsta heimsókn verður. Þeir hafa góðan aðgang að okkur hjá HSA og COVID-göngudeildinni. Það hefur skipt miklu máli bæði fyrir þá og okkur.“
Pétur fær skýrslu um líðan skipverjanna á hverjum degi. Hann segir að líðan þeirra sé þokkaleg sem stendur og að enginn sé alvarlega veikur.