UEFA hafði fyrir þónokkru síðan staðfest að tilkynning varðandi nýtt fyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu yrði tilkynnt í dag, 19. apríl. Það kom því ekki á óvart þegar stofnendur nýrrar „ofurdeildar“ Evrópu birtu áætlanir sínar síðla kvölds í gær.
Upphaflega stóð til að tilkynna breytt fyrirkomulag Meistaradeildarinnar þann 31. mars síðastliðinn en nokkur lið innan ECA - samband knattspyrnufélaga í Evrópu - vildu lengri tíma til að ræða auglýsingamál keppninnar og hvernig fjármunum yrði dreift.
Það virtist vera komin niðurstaða í málið fyrir helgi og planið var að tilkynna breytingarnar í dag. Það fór heldur betur á hliðina í gær er tólf af stærri liðum Evrópu ákváðu að gefa út að þau væru að stofna sína eigin deild og myndu ekki taka þátt í Meistaradeildinni í kjölfarið.
Nú hefur UEFA birt nýtt fyrirkomulag en það einnig yfir Evrópudeildina og svo þriðju Evrópukeppnina sem verður sett á laggirnar bráðlega, Sambandsdeild Evrópu [UEFA Europa Conference League].
„Svissneska kerfið“
Nýtt fyrirkomulag á rætur að rekja til Zurich í Sviss. Það er þó ekkert tengd fótbolta heldur skák og var kerfið notað á skákmótum þar í landi fyrir meira en öld síðan. Kerfið hefur í raun aldrei verið reynt þegar kemur að afreksíþróttum.
Í grunninn snýst þetta um að fjölga leikjum liða í Meistaradeild Evrópu. Hér að neðan má sjá helstu breytingar á keppni þeirra bestu.
- Liðum fjölgar um fjögur: Úr 32 í 36.
- Ein deild [Einn riðill].
- Tíu leikir gegn tíu mismunandi mótherjum: Alls fimm heima- og fimm útileikir.
- Lið verða sett í fjóra hluta: Hvert lið spilar tíu leiki en mætir liðum úr öllum fjórum hlutum.
- Efstu átta liðin fara áfram í útsláttarkeppni með hefðbundnu sniði eins og þekkist nú.
- Liðin í 9. til 24. sæti færu svo í umspil um hvaða lið myndu einnig komast í 16-liða úrslit.
- Þau lið sem ekki kæmust úr umspilinu í 16-liða úrslit Meistaradeildar færu í Evrópudeildina.
- Lokastaða riðilsins hefur áhrif á hver mætir hverjum í útsláttarkeppninni: 1. sæti myndi mæta 16. sæti og koll af kolli.
Sama mun eiga við um Evrópu- og Sambandsdeild UEFA. Í Evrópudeild yrðu átta leikir og svo útsláttarkeppni á meðan um sex leiki væri að ræða í Sambandsdeildinni.
The #UEFAExCo has approved a new format for club competitions as of the 2024/25 season.
— UEFA (@UEFA) April 19, 2021
The reforms come after an extensive consultation across the football family. The changes made are designed to secure the positive future of European football at every level.#UCL #UEL
Ekkert mun breytast er varðar þátttökuskilyrði í Meistara- eða Evrópudeildina. Liðin vinna sér inn þátttökurétt með góðu gengi heima fyrir.
Um er að ræða breytingar á Meistaradeild karla í knattspyrnu en kvennamegin breytist fyrirkomulagið á næstu leiktíð. Þá verður það líkt því sem þekkist karlamegin í dag.