Í kvöldfréttum okkar verður rætt við Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar í beinni útsendingu. Þingflokkurinn er tilbúinn með nýtt frumvarp sem heimilar heilbriðisráðherra að skylda komufarþega til dvalar í sóttvarnahúsi. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag sagðist forsætisráðherra vilja fá ráðrúm til að meta hvort núverandi aðgerðir á landamærum dugi til áður en gripið væri til breytinga á sóttvarnalögum. Helga Vala verður spurð hvort Samfylkingin hyggist ríða á vaðið og leggja frumvarpið fram eða hvort svar forsætisráðherra sé fullnægjandi enn um sinn.
Íslensk erfðagreining stóð í dag fyrir fræðslufundi um kórónuveiruna í dag. Við fjöllum um niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar sem kortleggur langvarandi áhrif sem COVID-19 hefur haft á þá sem hafa smitast.
Knattspyrnuheimurinn hreinlega nötrar allur og skelfur eftir að fréttir bárust af því í gærkvöldi að 12 lið hefðu staðfest þátttöku sína í nýrri knattspyrnudeild Evrópu, Ofurdeildinni. Í nýrri deild felst að liðum verður fjölgað úr þrjátíu og tveimur upp í þrjátíu og sex og í stað riðlakeppni munu öll liðin spila í einni deild. Svava Kristín Gretarsdóttir segir okkur frá þessum nýjustu vendingum í íþróttafréttum.
Þá greinum við frá helstu fréttum af erlendum vettvangi, og segjum frá því að nýtt indverskt afbrigði kórónuveirunnar hefur greinst. Þetta og meira til í stútfullum fréttatíma á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar á slaginu 18.30.