Tíu greindust með Covid-19 í gær, þar af voru níu í sóttkví. Hundrað þrjátíu og fjórir eru nú í einangrun á landinu, átta hundruð og tólf í sóttkví og fjórir á sjúkrahúsi.
Flest smit síðustu daga tengjast nokkrum afmörkuðum hópsýkingum. Sú stærsta tengist leikskólanum Jörfa í Reykjavík og telur nú um sjötíu manns, þar af eru börn tæplega helmingur. Um 150 krakkar úr Jörfa fóru í seinni skimun í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut í dag.
Ingibjörg Rós Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur segir að vel hafi gengið að skima börnin, sem mörg séu þó hrædd við sýnatökuna.
„Þau eru það. Umhverfið þarna inni - þetta er ógnvekjandi, eins og maður segir. Það eru einstaklingar í grænum búningum sem taka á móti þeim með grímur og skjöld þannig að aðstæðurnar sjálfar eru pínu skrýtnar.“
Krakkar sem fréttastofa ræddi við eftir sýnatöku í dag voru upplitsdjarfir - en sammála um óþægindin.
Hvernig var að fara í sýnatöku? „Ekki gott,“ sagði Anna Margrét Albertsdóttir, sjö ára nemandi í Sæmundarskóla.
Var settur pinni langt upp í nef kannski? „Já. Þetta var jafnóþægilegt og seinast.“
Fórstu nokkuð að gráta? „Já.“

Hrafnhildur Sunna Atladóttir nemandi á Jörfa var heldur ekki hrifin af sýnatökunni. Hún kvaðst ekki hafa farið að gráta og var spennt fyrir heilum þremur íspinnum sem henni hafði verið lofað að lokinni sýnatöku í dag.
Viðtölin við Önnu Margréti, Hrafnhildi Sunnu og Ingibjörgu Rós má horfa á í kvöldfrétt Stöðvar 2 hér fyrir ofan.