Innlent

Komu akandi og köstuðu grjóti gegnum rúðu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til upp úr miðnætti nótt þar sem menn höfðu komið akandi að heimili og kastað grjóti í gegnum rúðu. Atvikið náðist á öryggismyndavélar og er málið í rannsókn.

Þá var lögregla einnig kölluð til vegna umferðaróhapps sem átti sér stað rétt fyrir kl. 18. Þar hafði einni bifreið verið ekið á aðra en þegar tjónþoli hugðist hringja á lögreglu til að fá aðstoð settist tjónvaldur aftur inn í sína bifreið og ók aftur á bifreið tjónþola.

Að því loknu steig tjónvaldur úr bílnum og hugðist ganga á brott en hlýddi að lokum skipun um að setjast niður og halda kyrru fyrir. Tjónvaldur var handtekinn þegar lögregla kom á vettvang, enda grunaður um ölvun við akstur.

Annar tjónvaldur, sem ók á aðra bifreið um kl. 20.30, flúði af vettvangi en samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu er mögulega vitað hver var þar á ferð.

Þá var tilkynnt um innbrot í geymslur fjölbýlishúss í Árbæ seinnipartinn í gær, þar sem verðmætum var stolið, meðal annars reiðhjólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×