Erlent

Blinken reynir að festa vopnahléið í sessi

Samúel Karl Ólason skrifar
Antony Blinken byrjaði á því að funda með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra. Hann mun ræða við fleiri pólitíska leiðtoga Ísraels í dag og síðan við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu.
Antony Blinken byrjaði á því að funda með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra. Hann mun ræða við fleiri pólitíska leiðtoga Ísraels í dag og síðan við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. AP/Menahem Kahana

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú staddur í Ísrael þar sem hann byrjar ferðalag sitt um Mið-Austurlönd. Ætlar hann sér að styrkja vopnahléið milli Ísraels og Hamas á Gasa-ströndinni í sessi.

Vopnahléið, sem tók gildi á föstudaginn, hefur haldið síðan þá.

Blinken stendur þó frammi fyrir þeim sömu aðstæðum og leiddu til nýjustu átaka Ísraels og Hamas, þar sem minnst 250 manns dóu, þar af mest almennir borgarar á Gasa. AP fréttaveitan nefnir aðstæður eins og herskáa leiðtoga Ísraels, deilur meðal leiðtoga Palestínu og mikla spennu milli gyðinga og múslima varðandi Jerúsalem og helga staði þar.

AP fréttaveitan segir að búist sé við því að Blinken muni einbeita sér að uppbyggingu á Gasa-Ströndinni, án þess þó að eiga í beinum viðræðum við Hamas-liða, þar sem Hamas-samtökin eru álitin hryðjuverkasamtök af vestrænum ríkjum. Árásir Ísraelsmanna ollu gífurlegum skemmdum á Gasa og voru til að mynda fjölmörg fjölbýlishús jöfnuð við jörðu.

Blinken byrjaði ferð sína til Mið-Austurlanda á því að ræða við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, sem berst fyrir pólitísku lífi sínu eftir fjórar kosningar á tveimur árum þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn.

Hann hefur verið gagnrýndur í Ísrael fyrir að semja of snemma um vopnahlé og fyrir að ná ekki nægilega góðu höggi á Hamas. AP segir verulega ólíklegt að hann verði tilbúinn til nokkurra málamiðlana af ótta við að líta út fyrir að hafa lúffað fyrir Hamas.

Ekki útlit fyrir frekari viðræður

Engar viðræður milli Ísraels og Hamas hafa átt sér stað og er ekki útlit fyrir að slíkar viðræður muni fara fram á næstunni. Samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar telja ráðamenn í Bandaríkjunum það of snemmt. Þá er bent á að ákveðið tómarúm er í leiðtogastöðum beggja vegna átakanna. Bæði í Ísrael og í Palestínu.

Á blaðamannafundi með Netanjahú í morgun hét Blinken því að fá alþjóðasamfélagið til að hjálpa við uppbyggingu á Gasa. Hann sagði þó mjög mikilvægt að Hamas-samtökin mættu ekki hagnast á endurbyggingu á Gasa.

Hér má sjá blaðamannafundinn í morgun.

Blinken mun ekki ræða við leiðtoga Hamas, heldur fer hann til Vesturbakkans, þar sem hann mun funda með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Abbas hefur þó engin völd á Gasa, þar sem Hamas-liðar hafa ráðið ríkjum frá 2007.

Blinken mun því næst fara til Jórdaníu og Egyptalands og ræða við ráðamenn þar um ástandið.


Tengdar fréttir

Tugir særðir eftir átök við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem

Ísraelskar öryggissveitir beittu gúmmíkúlum og blossasprengjum gegn Palestínumönnum fyrir utan al-Aqsa moskuna í Jerúsalem í gær, aðeins hálfum degi eftir að vopnahléssamningar voru samþykktir bæði af Ísraels- og Palestínumönnum.

Erfið enduruppbygging framundan á Gasa

Vopnahlé tók gildi í morgun eftir ellefu daga átök Ísraelshers og Hamas-samtakanna. Rauði krossinn á Íslandi hefur safnað þrjátíu milljónum króna sem munu nýtast í mannúðaraðstoð á svæðinu.

Vopna­hlé hefur tekið gildi

Vopna­hlés­samningur milli Ísraels­manna og Hamas-sam­takanna tók gildi nú klukkan 23 á ís­lenskum tíma. Greint var frá því fyrr í kvöld að ríkis­stjórn Ísraels hefði á­kveðið að ganga að samningnum en ó­ljóst var hve­nær hann myndi taka gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×