Sport

Katrín Tanja og BKG fá enga íslenska samkeppni á spennandi helgi fyrir okkar besta fólk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir verða vonandi báðar brosandi eftir keppni helgarinnar.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir verða vonandi báðar brosandi eftir keppni helgarinnar. Mynd/Instagram/thedavecastro

Fyrstu Íslendingarnir geta tryggt sér sæti á heimsleikunum í CrossFit um helgina en þá fara fram undanúrslitamót besta íslenska CrossFit fólksins.

Það keppir enginn Íslendingur á staðnum í undanúrslitum í ár því bæði undanúrslitamótin sem eru með íslenska keppendur eru netkeppnir.

Íslenska fólkið tryggir sér sæti í gegnum Evrópu og þar ræður þjóðerni en ekki hvar viðkomandi hefur aðsetur. Katrín Tanja Daviðsdóttir æfir þannig í Bandaríkjunum en þarf samt að tryggja sér sæti á heimsleikunum í gegnum Evrópu.

Keppnir okkar fólks um helgina eru The German Throwdown í Þýskalandi og The Lowlands Throwdown í Hollandi. Mótin fara fram frá 11. til 13. júní en það má sjá keppendalistann hér fyrir neðan.

Fimm efstu karlar og konur á báðum þessum mótum tryggja sér sæti á heimsleikunum.

Ísland á alls sjö einstaklingskeppendur sem eru að berjast um farseðla á heimsleikana um helgina, þrjá karla og fjórar konur.

Katrín Tanja er jafnframt eini íslenska konan sem keppir á German Throwdown en allar hinar íslensku konurnar keppa á CrossFit Lowlands Throwdow í Hollandi. Anníe Mist Þórisdóttir, Þuríður Erla Helgadóttir og Sólveig Sigurðardóttir keppa því allar í hollenska mótinu.

Haraldur Holgersson og Þröstur Ólafson keppa aftur á móti báðir á þýska mótinu en Björgvin Karl Guðmundsson, BKG, er aftur á móti eini íslenski karlinn sem keppir á mótinu í Hollandi.

Einnig komst eitt lið, Crossfit Stöð, áfram í undanúrslitin frá Íslandi en það ber nafnið CFS Sport og er frá Crossfit Sporthúsinu. Íslenska liðið keppir á The Lowlands Throwdown í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×