Innlent

„Stærsta kerfis­breyting í mála­flokki barna undan­farna ára­tugi“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnir frumvörp í barnamálum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnir frumvörp í barnamálum.

Alþingi samþykkti í dag fjögur frumvörp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, sem tengjast málefnum barna. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þessi frumvörp feli í sér mestu breytingu sem gerð hafi verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Um er að ræða frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, frumvarp um Barna- og fjölskyldustofu, frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, auk frumvarps um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Málin eru hluti af markmiði ráðuneytisins um að endurskoða og efla þjónustu og stuðning við börn og fjölskyldur.

Yfirgripsmiklar breytingar

Frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna miðar að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þvert á kerfi. Markmiðið er að láta mismunandi hluta kerfisins tala betur saman, þannig að barnið verði hjartað í kerfinu. Frumvarpið tekur til allra þjónustu innan leik-, grunn-, og framhaldsskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. 

Barna- og fjölskyldustofa mun sinna verkefnum sem tengjast samþættingu þjónustu og almennri velferðarþjónustu í þágu barna. Hún mun taka við flestum verkefnum Barnaverndarstofu, sem verður lögð niður. Stofnunin mun jafnframt sinna stuðningi við sveitarfélög og aðra þjónustuaðila vegna þjónustu í þágu barna.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála mun taka við af Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar. Markmið stofnunarinnar er að styrkja eftirlit með gæðum velferðarþjónustu, ásamt því að vinna eftir þeirri hugsun sem boðuð er í samþættingarlöggjöfinni.

Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins breytist í Greiningar- og ráðgjafastöð. Hlutverk hennar er að sinna betur þeim verkefnum sem tengjast auknu samstarfi og samþættingu þjónustu í þágu barna. Þá er lögð sérstök áhersla á að ryðja burt hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þeirrar þjónustu sem þau eiga rétt á.

Barnið verði hjartað í kerfinu

Þá var þingsályktunartillaga félags- og barnamálaráðherra um stefnu um Barnvænt Ísland, markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, eining samþykkt á Alþingi í gær. 

Ásmundur Einar er ánægður með breytingarnar. „Markmið okkar í þessari vinnu hefur verið að barnið verði hjartað í kerfinu og að kerfið vinni fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Ég vil þakka öllum þeim sem komið hafa að þessari vinnu og ég held að ég geti alveg fullyrt að þetta sé stærsta kerfisbreyting í þessum málaflokki á Íslandi undanfarna áratugi,“ segir ráðherrann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×