Fótbolti

Milos nýr þjálfari Jóns Guðna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Milos Milojevic er nýr þjálfari Hamamrby.
Milos Milojevic er nýr þjálfari Hamamrby. Vísir/Vilhelm

Knattspyrnuþjálfarinn Milos Milojevic hefur verið ráðinn sem þjálfari sænska úrvalsdeildarfélagsins Hammarby. Jón Guðni Fjóluson er í lykilhlutverki í vörn liðsins.

Hann skrifar undir þriggja og hálfs árs samning við félagið sem er að hluta til í eigu Zlatan Ibrahimović.

Milos kemur frá Serbíu en lék lengi vel hér á landi ásamt því að þjálfa bæði Víking sem og Breiðablik í efstu deild karla. Þaðan hélt Milos til Svíþjóðar þar sem hann starfaði hjá Mjällby áður en Rauða Stjarnan í heimalandinu kom kallandi.

Árangur Milos með Mjällby – þar sem hann starfaði bæði sem aðstoðar- og aðalþjálfari – var frábær og því hefur Hammarby ákveðið að fá hann til Svíþjóðar á nýjan leik.

Hammarby er sem stendur í 8. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 11 stig að loknum átta leikjum. Deildin er mjög jöfn og þrátt fyrir að vera um miðja deild er liðið aðeins fjórum stigum frá fallsæti.

Það kom samt sem áður verulega á óvart þegar Stefan Billborn, fráfarandi þjálfari liðsins, var látinn taka poka sinn.

Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Guðni er á mála hjá Hammarby. Hann samdi við liðið fyrir núverandi tímabil og hefur hann leikið alla leiki liðsins í deildinni til þessa á leiktíðinni.

Jón Guðni Fjóluson er leikmaður Hammarby.Hammarby



Fleiri fréttir

Sjá meira


×