Fótbolti

Varð sú elsta í sögunni til að skora fyrir bandaríska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carli Lloyd fagnar sögulegu marki sínu í leiknum á móti Jamaíka í nótt.
Carli Lloyd fagnar sögulegu marki sínu í leiknum á móti Jamaíka í nótt. AP/Michael Wyke

Carli Lloyd setti nýtt met í nótt þegar hún skoraði í 4-0 sigri bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta í vináttulandsleik á móti Jamaíku.

Lloyd er elsta konan til að skora fyrir landslið Bandaríkjanna en hún bætti þarna met Kristine Lilly.

Það þurfti ekki að bíða lengi eftir þessu metmarki hjá Lloyd sem kom bandaríska liðinu í 1-0 eftir aðeins 24 sekúndna leik.

Lloyd var 38 ára og 332 daga gömul í gær en gamli methafinn Kristine Lilly var 38 ára og 264 daga gömul. Þetta var enn fremur 125. landsliðsmark Carli Lloyd í 303 leikjum.

Bandaríska liðið hefur nú spilað 41 leik í röð án þess að tapa. Lindsey Horan skorað annað markið úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Christen Press í teignum. Midge Purce skoraði þriðja markið og Alex Morgan innsiglaði sigurinn í uppbótatíma.

Carli Lloyd lék sin fyrsta landsleik árið 2005 en hún hefur orðið tvisvar sinnum heimsmeistari og tvisvar sinnum Ólympíumeistari með liðinu. Lloyd vaf kosinn besta knattspyrnukona heims fyrir árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×