Dieter Reiter, borgarstjóri München, vildi regnbogalýsa Allianz leikvanginn til að sýna hinsegin samfélaginu stuðning og gagnrýna lög sem voru nýlega samþykkt í Ungverjalandi og þrengja að réttindum hinsegin fólks.
Stuðningsmenn Þýskalands voru margir hverjir skreyttir regnbogalitunum í gær og Manuel Neuer, fyrirliði þýska liðsins, var með regnbogabandið sitt sem UEFA íhugaði að rannsaka og sekta Þjóðverja fyrir.
Þegar þjóðsöngur Ungverja ómaði hljóp einn stuðningsmaður Þýskalands svo inn á Allianz leikvanginn með regnbogafána. Hann stillti sér upp fyrir framan ungversku leikmennina og hélt fánanum á lofti áður en öryggisverðir færðu hann í burtu.
Uppátækið vakti mikla gleði hjá áhorfendum á vellinum sem klöppuðu stuðningsmanninum lof í lófa.
Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli. Þjóðverjar lentu tvisvar sinnum undir en komu til baka og jöfnunarmark Leons Goretzka tryggði liðinu 2. sæti F-riðils. Í sextán liða úrslitunum mætir Þýskaland Englandi á Wembley. Ungverjaland er hins vegar úr leik þrátt fyrir hetjulega baráttu gegn stórþjóðunum í dauðariðlinum.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.