SvD segir ennfremur frá því að Miðflokkurinn muni samkvæmt hugmyndunum fara í stjórnarandstöðu og leggja fram eigið fjárlagafrumvarp næsta haust. Segir að þingflokkur Miðflokksins muni skila auðu í atkvæðagreiðslu þingsins um væntanlega tillögu þingforseta um að Löfven verði næsti forsætisráðherra.
Gegn því að greiða leið Löfvens að myndun nýrrar stjórnar mun Miðflokkurinn fá sitt í gegn í málum er varðar vernd standa, eignarrétt í skóglendi sem og ákveðnum umbótatillögum er varðar vinnumarkað.
Tilkynni Löfven að grundvöllur sé fyrir nýrri stjórn mun þingforseti tilnefna hann og þingið svo greiða atkvæði um þá tillögu síðar í þessari viku. Einnig kann svo að fara að Löfven muni biðja Norlén um lengri frest til viðræðna við aðra flokka.
175
Til að ná meirihluta á þinginu þarf Löfven að tryggja sér það að 175 þingmenn eða fleiri greiði ekki atkvæði gegn honum. Hefur þá helst verið litið til þess að Löfven þurfi stuðning Miðflokksins og Vinstriflokksins, auk Jafnaðarmannaflokks síns og Græningja.
Nooshi Dadgostar,formaður Vinstriflokksins, tilkynnti í gær að Vinstriflokkurinn muni greiða atkvæði með Löfven sem forsætisráðherra.
Fráfarandi stjórn Löfvens var minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja, sem Miðflokkurinn og Frjálslyndir vörðu vantrausti. Stjórnin var þó einnig háð því að Vinstriflokkurinn myndi verja hana vantrausti.
Vinstriflokkurinn ákvað þó að greiða atkvæði með vantrauststillögu Svíþjóðardemókrata á mánudaginn í þarsíðustu viku vegna ákvörðunar stjórnar Löfvens um að afnema leiguþak á nýju húsnæði.
Löfven verður starfandi forsætisráðherra þar til ný stjórn verður mynduð.
Þingkosningar munu fara fram í Svíþjóð í september 2022, burtséð frá því hvort að niðurstaðan nú verði að boða verði til aukakosninga á næstu mánuðum þar sem ekki hefur tekist að mynda stjórn.