Að aðskilja einkalífið og vinnuna getur oft verið ansi flókið.
Sérstaklega þegar að málin eru að taka á okkur andlega. Tilfinningarnar í rússíbana og við hreinlega búin með alla orku.
Þegar að svona er ástatt, er oft ágætt að láta yfirmanninn vita. Staðreyndin er hins vegar sú að oft veigrar fólk sér við því að láta vita.
En hvað geta stjórnendur gert og hvernig er réttast að þeir bregðist við þegar vandamál heima fyrir eru að hafa áhrif á vinnu starfsfólks?
Í umfjöllun Harvard Business Review eru gefin nokkur góð ráð.
Það sem stjórnendur eiga EKKI að gera:
- Stjórnendur eiga að vera til staðar en ekki að gera sjálfan sig að einhvers konar ráðgjafa. Nánast eins og sálfræðing eða besta vin til að ræða við.
- Ekki gefa loforð um til dæmis svigrúm, frí eða að létta á viðkomandi verkefnum EF það er ekki hægt að standa við þessi loforð.
- Ekki styðja meira við suma starfsmenn en aðra. Jafnræði þarf að vera á milli starfsfólks þegar aðstæður koma upp og því er gott að taka ákvarðanir miðað við að sambærilegar aðstæður gætu komið upp hjá öðrum starfsmanni síðar: Hvernig ætlar þú þá að bregðast við?
Það sem mælt er með að stjórnendur GERI:
- Leggðu línurnar og gefðu tóninn þótt engin krísa sé í gangi. Teymið þitt þarf að vita að þú sért til staðar ef einhver mál heiman frá þarf að ræða. Þegar vinnustaðamenningin er þess eðlis að fólk þorir að ræða hlutina opinskátt, eru stjórnendur oftar í þeirri stöðu að geta áttað sig á hlutunum fyrr en ella og þá án þess að staðan heima fyrir sé farin að hafa áhrif á vinnuna.
- Hugsaðu í lausnum og út fyrir boxið ef þess er þarf. Stundum kalla aðstæður til dæmis á það að starfsmaður þarf að skreppa oft eða vera fjarverandi, til dæmis vegna þess að ástvinur er að mæta til læknis, í viðtöl eða annað. Ein leiðin til að mæta þessu gæti verið að ræða aukinn sveigjanleika í vinnutíma á meðan ástandið varir.
- Fylgstu með stöðunni hjá starfsmanninum reglulega en þó án þess að vera of mikið inn í öllu eða eins og til að njósna eða pressa á að tímabili fari að ljúka.