Að fara í sumarfrí felur þó meira í sér en að vaktplanið sé skipulagt og allir upplýstir um þitt frí og annarra. Gott er fyrir okkur sjálf, að undirbúa okkur undir það að vera að fara í frí.
Og þar sem góð vísa er sjaldan of oft kveðin, eru hér nokkur góð ráð úr umfjöllun Business Insider.
Byrjaðu snemma að undirbúa þig undir fríið
Margir kvarta undan því að vera í stressi áður en þeir fara í frí. Ná nánast ekki að fara í fríið á réttum tíma eða mæta jafnvel degi fyrr úr fríi vegna vinnu.
Hér snýst málin fyrst og fremst um að byrja snemma að undirbúa sig undir það að fara í frí. Gera verkefnalista fram í tímann og passa þá vel að þar séu aðeins verkefni sem virkilega þurfa að klárast fyrir frí.
Vinnunetfangið
Með góðum fyrirvara er gott að setja texta niður á blað fyrir tilkynningu vinnutölvupóstsins um að þú sért í fríi.
Ræða við samstarfsfólk um hvaða nafn og netfang eigi að gefa upp í þinni fjarveru.
Mikilvægir viðskiptavinir
Það fer auðvitað eftir því við hvað við störfum hvort það eigi við að láta viðskiptavini vita fyrirfram um sumarfríið þitt.
En ef þú ert í þannig starfi að þú ert oft í samskiptum við viðskiptavini, er ágætt að skrifa niður lista af þeim viðskiptavinum sem þú telur æskilegt að viti með fyrirvara að þú ert að fara í frí.
Þetta er ágætt að gera einni til tveimur vikum fyrir sumarfrí. Enda er þetta líka gott tilefni til að heyra í góðum viðskiptavinum.
Skoðaðu forgangsröðunina vel
Eitt er að búa til góðan verkefnalista með góðum fyrirvara en annað er að verkefnin séu unnin í réttri forgangsröðun.
Ef forgangsröðun verkefna er ekki góð, er meiri hætta á að þú náir ekki að sinna öllu sem þú vildir fyrir frí og endir í stressinu sem þú ert að reyna að forðast.
Það er því gott að gefa sér smá tíma í að skoða þetta atriði sérstaklega vel.
Hvernig verður staðan eftir frí: Til dæmis eftir mánuð?
Þegar að við undirbúum okkur fyrir fríið, er líka ágætt að horfa aðeins til þeirra verkefna sem eru líkleg til að taka við þegar að við komum aftur úr fríi.
Ekki bara fyrstu dagana eftir frí, heldur til dæmis fyrstu vikurnar eftir frí. Hvað er til dæmis líklegt að verði í gangi í vinnunni mánuð eftir frí? Er eitthvað sem er gott að klára fyrir frí, þannig að það sé meira svigrúm til að undirbúa þau verkefni vel eftir frí?
Treystu samstarfsfólkinu þínu
Hvort sem þú ert í stjórnendastöðu eða ekki, er líka gott að hafa í huga að traust til samstarfsfólksins þíns er lykilatriði.
Það eru til dæmis allar líkur á að allt muni ganga mjög vel fyrir sig, þótt þú sért að fara í frí!
Fyrir fríið er samt ágætt að fara yfir það með samstarfsfólki, hvort það sé hægt að ná í þig á meðan þú ert í frí og þá hvernig (tölvupóstur, sími?).
Eins ef markmiðið þitt er að vera alveg í fríi, þá er gott að ræða það líka við samstarfsfólk og gera ráðstafanir um úthlutun verkefna og/eða upplýsingagjöf um stöðu verkefna í samræmi við það.