Innlent

Ekkert bendi til saknæms athæfis í máli manns sem lést í haldi lögreglu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kolbrún Benediktsdóttir er varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir er varahéraðssaksóknari. Vísir/Vilhelm

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir ekkert benda til þess að neitt saknæmt hafi átt sér stað þegar maður lést í haldi lögreglu aðfaranótt 1. ágúst.

„Það sem tekur mestan tíma er að fá endanlegar niðurstöður úr krufningu en við reynum að flýta málinu eins og er,“ sagði Kolbrún í samtali við Vísi. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Maðurinn var í geðrofsástandi þegar hann var handtekinn fyrir utan áfangaheimilið Draumasetrið. 

Í tilkynningu frá lögreglu greindi frá því að lögregla og sjúkralið hefði verið kallað að húsnæði í austurborginni um tvöleytið, vegna manns sem var sagður í annarlegu ástandi. Maðurinn var fluttur á Landspítala en rétt áður en þangað kom missti hann meðvitund og fór í hjartastopp.

Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna á spítalann. Hann var á fertugsaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×