„Ég fagna þessu mjög mikið,“ segir Páll í samtali við fréttastofu. Hann segist þar að auki ánægður með að þetta skuli gerast á svo flottum degi og afmælisdegi Thors Vilhjálmssonar, sem hann vann mikið með.
Til stóð að rífa hús Legsteinasafnsins, sem kallast Legsteinaskálinn, klukkan tvö í dag.
Forsaga málsins er sú að Páll Guðmundsson, sem reist hafði Legsteinasafnið í Húsafelli í Borgarbyggð, var gert að hefja niðurrif þess vegna dóms Héraðsdóms Vesturlands vegna máls sem nágranni hans Sæmundur Ásgeirsson höfðaði á hendur honum.
Niðurrifinu var þó frestað og stóðu viðræður yfir í nokkrar klukkustundir.
Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, segir viðræðurnar í raun hafa byrjað í gærkvöldi. Rætt hafi verið við eigendur Gamla bæjar og Bæjargils og þeir hafi séð forsendur til sáttaumleitanna. Þær hafi byrjað átta í morgun.
„Þetta var erfið umræða og tók töluverðan tíma en að lokum eru allir sáttir við niðurstöðuna,“ segir Þórdís. „Niðurstaðan er þá að Legsteinaskálinn verður ekki rifinn og eigandi Gamla bæjar fullnustar ekki dóminn um niðurrif eða dagsektir.“
Þá verði gerð sátt um deiliskipulag á lóðum Gamla bæjar og Bæjargils.
Þórdís segir þetta varanlega niðurstöðu í málinu. Búið sé að undirrita samkomulag.
„Við erum ótrúlega ánægð með að þessu skrefi sé lokið.“

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, formaður byggðarráðs Borgarbyggðar, segir niðurstöðuna hafa mikla þýðingu fyrri samfélagið í Borgarbyggð, menningarverðmæti og söguna.
„Þetta er gríðarlega góð stund að vera búin að ná sáttum í þessu máli,“ segir Þórdís. Hún segir sérstaklega gott að nú sé hægt að halda áfram uppbyggingu á svæðinu í sátt og samlyndi allra.






