Innlent

Skiluðu inn minnisblaði til ráðherra

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Tuttugu og sjö sjúklingar liggja nú inni á Landspítalanum með Covid-19, þar af sex á gjörgæslu og eru fimm þeirra bólusettir. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans og Már Kristjánsson yfirlæknir hafa skilað inn minnisblaði til ráðherra um stöðu mála á Landspítalanum í fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins sem nú stendur yfir.

Þetta kemur fram á vef Landspítalans en þar segir að 21 liggi inni á bráðalegudeild spítalans með Covid-19, þriðjungur þeirra er óbólusettur. Fimm af þeim sem eru á gjörgæslu þurfa öndunarvélastuðning og eru fjórir þeirra bólusettir. Meðalaldur þeirra sem liggja inni á spítalanum er 65 ár.

Jafnframt eru 1.162, þar af 223 börn, í eftirliti hjá Covid-göngudeild spítalans og fækkar nokkuð þar á milli daga. Fjórir sjúklingar eru metnir og 38 einstaklingar gulir og þurfa nánara eftirlit.

Alls hafa 77 sjúklingar lagst inn á Landspítala með COVID í fjórðu bylgju faraldursins. Um þriðjungur er óbólusettur. Tólf hafa þurft gjörgæslustuðning.

Á vef Landspítalans kemur jafn framt fram að í gær hafi Páll Matthíasson forstjóri Landspítala, sem jafnframt er formaður viðbragðsstjórnar, og Már Kristjánsson yfirlæknir og formaður farsóttanefndar spítalans skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra um stöðu mála á Landspítala í fjórðu bylgju COVID-19 faraldursins.

Jafnframt var gerð grein fyrir spá um þróun faraldursins eins og hún lá fyrir. Spáin er unnin í samstarfi Háskóla Íslands og Landspítala og má nálgast hér.


Tengdar fréttir

103 greindust smitaðir innan­lands í gær

Í gær greindust minnst 103 einstaklingar innanlands með Covid-19. Þar af voru 48 í sóttkví og 55 utan sóttkvíar. Enn er ekki komið fram hve margir þeirra voru bólusettir.

Vilja skoða önnur úr­ræði vegna sótt­kvíar barna

Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er velt upp hvort ekki sé hægt að beita vægari úrræðum en sóttkví heilu bekkjanna og árganganna þegar smit koma upp í skólum. Hraðpróf hljóti að koma til álita ef ekki eigi að lama skólastarf ítrekað í vetur, og þar með samfélagið allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×