Innlent

Teknir í spyrnu á 157 kílómetra hraða

Árni Sæberg skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni í gær og í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni í gær og í nótt. Vísir/Vilhelm

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt voru tvær bifreiðar stöðvaðar á Miklubraut eftir að hafa mælst á 157 kílómetra hraða á klukkustund en hámarkshraði á Miklubraut er 80 kílómetrar á klukkustund.

Í dagbók Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu segir að ökumenn bifreiðanna hafi gengist við því að hafa verið í spyrnu. Sá sem tapaði hafi hins vegar ekki gengist við því að hafa náð mældum hraða.

Upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi var maður handtekinn í miðbænum vegna gruns um innbrot í bifreiðar. Eigandi einnar bifreiðarinnar greip þjófinn glóðvolgan er hann var að yfirgefa bifreiðina með verðmæti úr henni í fórum sínum.

Þá var maðurinn einnig með ætlað þýfi úr öðrum bifreiðum. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Um klukkan eitt í nótt var tilkynnt um innbrot. Búið var að spenna upp glugga og brjótast inn í íbúð en ekki er vitað hvort nokkru hafi verið stolið.

Upp úr sjö í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í miðbænum. Ökumaður hennar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×