Handbolti

Pétur Júníusson tekur skóna af hillunni og slaginn með Víkingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur Júníusson mætir aftur í Olís-deildina í vetur.
Pétur Júníusson mætir aftur í Olís-deildina í vetur. vísir/vilhelm

Nýliðar Víkings í Olís-deild karla í handbolta hafa samið við tvo leikmenn, þá Pétur Júníusson og Andra Dag Ófeigsson.

Pétur tekur skóna af hillunni eftir þriggja ára hlé en hann hætti í handbolta vegna erfiðra og þrálátra meiðsla 2018. Hann var í lykilhlutverki í liði Aftureldingar sem fór í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn 2015 og 2016 og var viðloðandi íslenska landsliðið um tíma. Pétur var afar lofandi línumaður, öflugur í vörn og sókn, vakti athygli erlendra félaga.

Andri er Frammari að upplagi en var í herbúðum Selfoss á síðasta tímabili. Hann lék aðallega með ungmennafélagi Selfoss í Grill 66 deildinni og skoraði þar 69 mörk í sextán leikjum.

Víkingar tóku sæti Kríumanna í Olís-deildinni eftir að þeir gáfu það frá sér vegna aðstöðuleysis. Víkingur endaði í 2. sæti Grill 66 deildarinnar á síðasta tímabili og tapaði fyrir Kríu í úrslitum umspils um sæti í Olís-deildinni.

Víkingur lék síðast í Olís-deildinni tímabilið 2017-18 en þá tók liðið sæti KR sem gaf það frá sér. Víkingur endaði í tólfta og neðsta sæti Olís-deildarinnar og féll.

Fyrsti leikur Víkings í Olís-deildinni er gegn ÍBV á heimavelli 16. september.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×