Í samtali við Vísi segist hann hafa vitað að það væri að styttast í þessi tímamót hjá bænum, enda fylgist bæjaryfirvöld vandlega með þróun íbúafjölda frá degi til dags.

„Svo er ég staddur á bæjarráðsfundi 4. ágúst og vissi að Sigríður mín væri komin í fæðingu. Síðan hringir síminn og ég skrepp af fundi. Þá er drengurinn kominn í heiminn. Ég skýst aftur inn og afsaka mig, en ég hafi verið að eignast afastrák. Þá segir Kjartan bæjarstjóri: „Heyrðu, Bubbi, þetta gæti verið tuttugu þúsundasti íbúinn.““
Svo var farið að skoða fæðingatölur nánar, enda hefur bæjarstjóri haft þann sið að hitta alla nýja íbúa á svona tímamótum.
„Þetta hitti þá svona skemmtilega á að hann var einmitt númer tuttugu þúsund,“ segir Guðbrandur stoltur.
Hann á fyrir tvær afastelpur en þarna kom fyrsti afastrákurinn hans. Guðbrandur bætir því við að íbúum hafi fjölgað mikið í Reykjanesbæ þetta árið.
„Það hefur verið mikill kraftur í þessu hjá okkur þrátt fyrir að staðan hafi verið nokkuð snúin ekki alls fyrir löngu, og íbúum hefur raunar fjölgað um um það bil 130 síðan strákurinn kom í heiminn.“
Atvinnuleysi á svæðinu hafði náð áður óþekktum hæðum eftir að heimsfaraldurinn reið yfir, en talsvert er að rofa til nú í atvinnumálum að sögn Guðbrands.

„Það er fullt að gerast hjá okkur og fólk er mikið að sækja til okkar, enda fær það hér tækifæri til að koma þaki yfir höfuðið án þess skuldsetja sig úr hófi fram.“
Reykjanesbær er nú fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins eftir að hafa tekið fram úr Akureyri fyrir rúmum tveimur árum síðan.